Atvinnu- og nýsköpunarhelgin 2013 fer fram á Akureyri helgina 5. til 7. apríl. Tilgangurinn er að hjálpa einstaklingum eða fyrirtækjum að koma
hugmyndum sínum í framkvæmd og á framfæri við rétta aðila. Fjölmörg fyrirtæki og aðilar af svæðinu styðja rausnarlega
við viðburðinn í samstarfi við Akureyrarstofu en Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur sér um framkvæmdina í
samvinnu við Landsbankann.
Atvinnu- og nýsköpunarhelgin er opin fyrir alla, bæði fyrir þá sem eru með eigin viðskiptahugmynd og þá sem hafa áhuga á
að leggja sitt að mörkum við að fullmóta viðskiptahugmyndir annarra. Fjöldi frumkvöðla og annarra sérfræðinga mun veita
ráðgjöf.
Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu hugmyndirnar. Auk þess verður fjórum hugmyndum veitt sérverðlaun. Í framhaldi geta
þátttakendur haldið áfram að þróa viðskiptahugmyndir sínar og fengið til þess ráðgjöf frá Innovit og
Landsbankanum.
Þetta er í þriðja sinn sem að Atvinnu- og nýsköpunarhelgi er haldin á Akureyri. Í febrúar 2012 mættu 90 þátttakendur
og kynntar voru 34 viðskiptahugmyndir. Sigurvegari var viðskiptahugmyndin Whale Buddy, snjalltækjaforrit fyrir hvalaskoðun og upplýsingaöflun.
Atvinnu- og nýsköpunarhelgin fer fram í aðalsal Háskólans á Akureyri, Sólborg Norðurslóð 2. Enginn kostnaður fylgir
þátttöku. Áhugasamir geta skráð sig HÉR.