Atli Viðar Engilbertsson.
Í morgun var tilkynnt í Ketilhúsinu á Akureyri að Atli Viðar Engilbertsson er listamaður Listar án landamæra árið 2013. List
án landamæra er árleg listahátíð með áherslu á fjölbreytileika mannlífsins. Í vor verður tíunda
hátíðin sett þann 18. apríl. Á hátíðinni vinnur listafólk saman að list með margbreytilegri útkomu. Það
leiðir til auðugra samfélags og aukins skilnings manna á milli. Hátíðin er vettvangur viðburða. Hún er síbreytileg og lifandi og er
haldin um allt land. Markmið hátíðarinnar er að auka aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu. Að koma list fólks með
fötlun á framfæri og koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Sýnileiki ólíkra einstaklinga er
mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni og hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum.
Á hverju ári er valinn listamaður hátíðarinnar hjá List án landamæra hvers verk prýða kynningarefni
hátíðarinnar það árið. Árið 2011 var það Guðrún Bergsdóttir útsaumslistakona sem hlaut tilnefninguna og
sýndi hún verk sín í Hafnarborg í Hafnarfirði. Ísak Óli Sævarsson var listamaður hátíðarinnar 2012 og sýndi
verk sín í Norræna húsinu. Í morgun var svo tilkynnt að Atli Viðar hljóti þennan heiður árið 2013. Fimm tilnefningar
bárust og í dómnefnd sátu fulltrúar Listasafns Reykjavíkur, Kling og Bang gallerís og Ísak Óli Sævarsson listamaður
hátíðarinnar 2012 ásamt Sævari Magnússyni.
