Á laugardaginn mun Listasafn Akureyrar opna sýninguna Rím. Þar gefur að líta úrval verka myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar í bland við verk listamanna samtímans sem ríma við verk hans. Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur ? Ásmundarsafn.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni, auk Ásmundar Sveinssonar, eru Birgir Snæbjörn Birgisson, Davíð Örn Halldórsson, Eirún Sigurðardóttir, Finnur Arnar Arnarson, Guðrún Vera Hjartardóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Kristín Gunnlaugsdóttir, Ólöf Nordal, Pétur Örn Friðriksson og Sara Riel.
Ásmundur Sveinsson sótti oft viðfangsefni sín í arfleiðina og þann tíðaranda sem skóp hann, en einnig í framtíðina, tæknina og vísindin. Þeir listamenn sem sýna með Ásmundi hafa glímt við sömu hluti og hann en í nútímanum og í samhengi við sinn tíma og tíðaranda. Verkin á sýningunni eru mótuð af ólíkri tækni og tíðaranda, en sækja jafnframt í sameiginlegan brunn þar sem uppspretta nýrra hugmynda virðist óþrjótandi. Tengsl verka Ásmundar við verk annarra listamanna sýningarinnar endurnýjar innihald þeirra og dýpkar samtal þeirra við umhverfi sitt. Sýningarstjórar eru Ólöf K. Sigurðardóttir og Sigríður Melrós Ólafsdóttir.

Verk eftir Ásmund Sveinsson, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Eirúnu Sigurðardóttur og Finn Arnar Arnarsson eru á meðal þeirra sem líta má á sýningunni Rím, sem opnar í Listasafninu á Akureyri þann 3. júlí næstkomandi.
Mynd með leyfi Listasafns Reykjavíkur/ljósmynd Arnaldur Halldórsson.