Áramótabrenna og öllum boðið í veislu

Mikið var um að vera í Grímsey í gær, sunnudaginn 29. desember, en þá heimsóttu eyjaskeggja bæði læknir, prestur og organisti.

Haldin var jólaguðþjónusta og nýjasti eyjarskegginn skírður en það er hún Villa Ragna Þórsdóttir sem fæddist 29. ágúst síðastliðinn. Öllum Grímseyingum var boðið til veislu í félagsheimilinu Múla að athöfn lokinni.

Einnig verður mikið um að vera annað kvöld, 31. desember, en þá verður kveikt í brennu kl. 20.00 við norðurendann á tjörninni og boðið upp á flugeldasýningu þar á eftir. Áramótafagnaður verður svo haldinn á veitingastaðnum Kríunni og hefst eftir miðnætti.  Brennan í eyjunni verður mjög stór og vegleg í ár en gamla þakið af sundlauginni verður sett í köstinn en þakið var sem kunnugt er endurnýjað síðastliðið sumar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan