Alþjóðlegir vetrarleikar í Hlíðarfjalli

Mynd: Hlidarfjall.is.
Mynd: Hlidarfjall.is.

Í byrjun mars 2014 verða haldnir alþjóðlegir vetrarleikar (Iceland Winter Games) á skíðum og snjóbrettum í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Mótið verður árlegt og er haldið í starfi við Norwegian Open sem er sambærilegt stórmót í Noregi. Keppt verður í ýmsum greinum frjálsra skíðaíþrótta (freeskiing) og á snjóbrettum. Stefnt er að því að fyrsta árið verði keppendur um 100 frá Norðurlöndunum, einkum Noregi, Svíþjóð og Íslandi, en að í nánustu framtíð verði keppendur ríflega eitt þúsund og þá teygi mótið sig einnig yfir á skíðasvæðin á Dalvík og Siglufirði.

Fyrirmynd Iceland Winter Games er áðurnefnt Norwegian Open mót sem hefur notið gríðarlegra vinsælda síðan það var fyrst haldið árið 2009 og stækkað ár frá ári. Mótið er nú hluti AFP-sambandsins (afpworldtour.com) sem heldur utan um mótaraðir í freeskiing og er eins konar regnhlífarsamtök atvinnumanna í íþróttinni. Freeskiing er sú grein vetraríþrótta sem vex hraðast í heiminum og er til dæmis talið að hátt í 400.000 iðkendur séu í Noregi en fimm Norðmenn eru meðal þeirra 20 bestu í heiminum.

Davíð Rúnar Gunnarsson hjá Viðurðastofu Norðurlands, sem skipuleggur Iceland Winter Games í samvinnu við ýmsa aðila í ferðaþjónustu á Norðurlandi, segir að markmiðið sé að gera þetta risamót í Hlíðarfjalli eitt af þeim bestu í Evrópu. „Allar aðstæður í Hlíðarfjalli eru fyrsta flokks og ég er ekki í nokkrum vafa um að okkur mun takast að búa til mót á heimsmælikvarða sem mun laða til sín þúsundir ferðamanna innan fárra ára.“

Íslensku vetrarleikarnir verða haldnir í Hlíðarfjalli 6.-9. mars 2014.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan