Samsýningin ALLT + varð upphaflega til í samstarfi Myndlistarfélagsins á Akureyri og Sjónlistamiðstöðvarinnar og hét
þá Hér, þar og allstaðar, síðan til styttingar Alltið og að lokum ALLT (í) PLÚS (en ekki einhverjum bullandi
mínus). Lagt var upp með að verkin yrðu mun færri og stærri á umferðartorgum, gatnamótum og jafnvel í verslunum, en í vinnsluferlinu
tók sýningin stakkaskiptum og tútnaði út eins og blaðra, en samtals 71 myndlistarmenn taka þátt í henni. Hér er ekki um
neina venjulega samsýningu að ræða því ekkert þema ræður ríkjum og þátttakendur máttu hvarvetna viðra verk sín
nema í Sjónlistamiðstöðinni. Þannig má segja að myndlistin sé sprengd út í samfélagið í tilefni af 150 ára
afmæli Akureyrar. Þetta eru einkasamtöl listamannsins gegnum verk sitt við tiltekinn stað sem hún eða hann ber sterkar taugar til, svo úr verður net
örsagna sem bjóða upp á óvænta og mjög persónulega sýn á bæinn.
Væntanlegt er kort af Akureyri þar sem merkt er inn á hvar verkin er að finna, en Akureyrski “hughönnuðurinn” Karl Örvarsson tók að
sér að útfæra táknmynd sýningarinnar og undirstrikar það að um fallega sögu sé að ræða sem endar á besta veg eins
og öll alvöru ævintýri.