Allt gert til að halda skíðasvæðinu opnu fram yfir páska

Í brekkunum fyrir fáeinum dögum. Mynd: Jónas Stefánsson.
Í brekkunum fyrir fáeinum dögum. Mynd: Jónas Stefánsson.
Sumarhiti var í Hlíðarfjalli í gær og hætt er við að næstu dagar verði lítið skárri. Skíðasvæðið er opið í dag en á miðvikudag og fimmtudag verður lokað. Þannig er reynt að spara snjóinn í brekkunum og um leið og kólnar aftur verður snjó rutt upp og hann fluttur í brautirnar.
 
Opnað verður aftur á föstudaginn og haft opið um helgina. Spáð er kólnandi veðri um og eftir helgi. Ekki er loku fyrir það skotið að snjóað gæti með ofurlitlu frosti í næstu viku.
 
Með hækkandi hita mýkist snjórinn hratt og orðið hefur vart við grunn snjólög á ákveðnum stöðum, sérstaklega á neðri svæðum. Til að minnka hættuna á að skemma svæðið vegna hratt bráðnandi snjóa verða snjótroðarar ekki keyrðir yfir viðkvæmustu svæðin. Gestir Hlíðarfjalls eru beðnir að fara varlega, halda sig innan merktra brauta og sýna aðgát við breytilegar aðstæður.
 
Vinsamlegast virðið merkingar og lokanir, það er lítill sem enginn snjór utan troðinna leiða og mjög varasamt. Eins eru leiðir ekki komnar í fulla breidd og því þarf að nýta plássið vel í brekkunum og taka tillit hvert til annars.
 
Starfsfólk Hlíðarfjalls þakkar skilning og samvinnu meðan unnið er að því að tryggja öllum örugga og ánægjulega upplifun í Fjallinu.
 
Hlökkum til að sjá ykkur í fjallinu!
 
Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan