Mynd: ÖA.
Merkilegt frumkvöðlastarf hefur verið unnið á Öldrunarheimilum Akureyrar (ÖA) með því að setja upp þráðlaust net og kaupa
spjaldtölvur á heimilin. Samhliða því hefur upplýsingamiðlun á heimasíðu ÖA og samfélagsmiðlum verið efld til mikilla
muna. Markmiðið er að hvetja til aukinnar virkni íbúa með hjálp upplýsinga- og tölvutækninnar. Í fyrsta áfanga þessa
verkefnis hefur spjaldtölvum og þráðlausu neti verið komið upp á tveimur af fimm heimilum (deildum) ÖA.
Öldrunarheimili Akureyrar ákváðu í byrjun árs 2013 að setja velferðartækni sérstaklega á dagskrá, huga að nýjum
möguleikum og setja af stað tilrauna- og þróunarverkefni innan heimilanna. Rekja má ákvörðunina til tillagna vinnuhóps um viðhorf til
öldrunarþjónustunnar á Akureyri, Eden-hugmyndafræðinnar og ráðstefnu um velferðartækni.
Búið er að setja upp þráðlaust net á heimilunum tveimur og í almennu rými í Hlíð. Í dag voru svo afhentar 10
spjaldtölvur (iPad) til afnota fyrir íbúa. Á næstu vikum verður lokið við uppsetningu á upplýsingaskjáum fyrir viðburði og
fréttir og sett upp Fésbókarsíða.
Mikilsverð vídd í velferðartækni á ÖA eru áform um að nota tæknina til að auka samskipti milli íbúa og aðstandenda og
draga þannig úr hindrunum vegna fjarlægða. Slíkt verður auðvelt að gera í gegnum Skype, FaceTime og álíka samskiptaforrit, þegar
þráðlaus búnaður er til staðar og aðgengi að tækjum.
Verkefnið „Tækni og velferð á ÖA“ hlaut myndarlegan styrk frá Samfélagssjóði Samherja og er þetta hluti af framgangi þess
verkefnis.
Á meðfylgjandi mynd eru Baldur Frímannsson og Erla Birgisdóttir að skoða nýja spjaldtölvu í Lögmannshlíð.