Mynd: Auðunn Níelsson.
Akureyrarvaka verður haldin um næstu helgi og verður sett með dagskrá í Lystigarðinum á föstudagskvöld undir yfirskriftinni
Rökkurró. Veðurspáin fyrir næstu helgi er ekki eins og best verður á kosið en aðstandendur hátíðarinnar ætla ekki að
láta það á sig fá og halda ótrauðir sínu striki.
Ef til vill verða einhverjir viðburðir færðir um set og hafðir innandyra ef veður verður til óþæginda. Spáð er fremur köldu og
vætusömu veðri en stilltu og eiga menn von á að dagskrá hátíðarinnar haldist að mestu óbreytt.
Hápunktur Akureyrarvöku verður á laugardag þegar efnt verður til litríkrar listaveislu með alþjóðlegum blæ á
Ráðhústorgi, í Listagilinu og víðar um bæinn. Dagskrá laugardagsins lýkur með útitónleikum hljómsveitarinnar Retro
Stefson og gesta á risasviði neðst í Listagilinu kl. 21.00. Yfirskrift tónleikanna er Retro Stefson Karnival. Hljómsveitin vinsæla flytur þar eigin
lög en klæðir einnig alkunna smelli frá fyrri tíma í „Retro Stefson búning“ og fær í því skyni til liðs við
sig m.a. söngvarana Pálma Gunnarsson og Helenu Eyjólfsdóttur.
Aðrir hápunktar dagsins eru Vísindasetur í Rósenborg þar sem ýmsar furður verða kynntar ásamt því að
sérfræðingar útskýra sprengingar í Vaðlaheiðargöngum. Boðið verður upp á forvitnilega eldhúsrétti frá
fjölda þjóðlanda í Menningarhúsinu Hofi. Þar verða einnig kynntir barnaleikir frá öllum heimshornum. Listagilið verður iðandi af
lífi allan laugardaginn með tónlist, listsýningum, matarmarkaði, listmálurum að störfum og fleiru.
Bæklingi Akureyrarvöku verður dreift um Eyjafjarðarsvæðið á morgun, miðvikudag, og dagskrána í heild sinni má sjá á
Visitakureyri.is.