Íbúaþing í Hofi

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Akureyrarbær býður til íbúaþings í Hofi fimmtudaginn 8. nóvember nk. kl. 16.30-20.30. Viðfangsefnið er stórt: Að móta framtíð samfélagsins til langs tíma. Það er nauðsynlegt að íbúarnir móti framtíðina saman og þess vegna er öllum boðið til íbúaþingsins, ungum sem öldnum. Afrakstur þingsins myndar grunn að nýrri langtímaáætlun í anda Staðardagskrár 21.

Akureyri var í hópi fyrstu sveitarfélaganna á Íslandi sem byggðu áætlanir sínar á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þessi hugmyndafræði gengur í aðalatriðum út á að skoða sérhvert mál í stóru samhengi og reyna að sjá fyrir hvaða áhrif ákvarðanir í samtímanum hafa á hag komandi kynslóða, nær og fjær. Aðalmarkmiðið er að afkomendur okkar geti lifað góðu lífi á Akureyri, á Íslandi og hvar sem er í heiminum.

Áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun ganga alla jafna undir heitinu Staðardagskrá 21. Hins vegar er nafnið ekkert aðalatriði, það er innihaldið sem skiptir máli. Fyrsta Staðardagskráin fyrir Akureyri var samþykkt í bæjarstjórn 24. apríl 2001 eftir að hafa verið tvö ár í smíðum. Þar með skipaði Akureyrarbær sér í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi hvað þetta varðar, og hefur haldið þeirri stöðu upp frá því. Síðan þá hefur Staðardagskráin verið endurskoðuð tvisvar, fyrst 2006 og aftur 2010. Nú er komið að þriðju endurskoðuninni. Hún hefst með íbúaþinginu í Hofi 8. nóvember.

Viðfangsefni íbúaþingsins er ekki bara stórt, það er líka mikilvægt og spennandi. Aðalumræðuefnið er Akureyrarbær 2030. Allir hljóta að vera sammála um að þar eigi að vera gott að búa. En hvað felur það í sér? Hvernig viljum við að bærinn okkar verði þá? Hvað þarf til? Hvað þarf að gera á allra næstu árum til að hann verði einmitt þannig?

Íbúaþingið verður með þjóðfundarfyrirkomulagi, þar sem allir eru jafnir og allar hugmyndir velkomnar. Boðið verður upp á léttan kvöldverð á staðnum. Umhverfisnefnd og Framkvæmdadeild Akureyrarbæjar standa fyrir þinginu. Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá UMÍS í Borgarnesi, verður bænum innanhandar við undirbúning og framkvæmd. Hann hefur mikla reynslu af vinnu sem þessari og mikla þekkingu á sviði sjálfbærrar þróunar.

Niðurstaða íbúaþingsins verður nýtt sem grunnur að framkvæmdaáætlun með vel afmörkuðum verkefnum sem stuðla að því að Akureyrarbær verði eins og við viljum hafa hann 2030. Drög að þessari áætlun verða kynnt opinberlega þannig að íbúar hafa tækifæri til að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri síðar í ferlinu.

Akureyrarbær er fjölbreytt sveitarfélag þar sem hver staður hefur sína sérstöðu. Á íbúaþinginu verður reynt að draga upp mynd af æskilegri stöðu mála í sveitarfélaginu öllu árið 2030, en lausnirnar og verkefnin geta verið mismunandi eftir aðstæðum á hverjum stað. Þannig eiga Glerárhverfi, Grímsey og Hrísey margt sameiginlegt, en óhjákvæmilega hljóta þó viðfangsefnin og aðferðirnar við að nálgast þau að vera að einhverju leyti ólík. Mikilvægt er að raddir allra byggða Akureyrarbæjar heyrist á íbúaþinginu.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku í íbúaþinginu á netfangið s21@akureyri.is í síðasta lagi mánudaginn 5. nóvember. Vegna undirbúnings þingsins, veitinga o.fl. er nauðsynlegt að hafa glögga mynd af væntanlegri þátttöku.

Ath.: Framtíðin kemur. Við höfum val um hvort við tökum þátt í að móta hana eða látum öðrum það eftir. Íbúaþingið 8. nóvember er tækifæri til að hafa áhrif á Akureyrarbæ framtíðarinnar. Sjáumst í Hofi.

Umhverfisnefnd Akureyrarbæjar
Framkvæmdadeild Akureyrarbæjar

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan