Áhöfnin á Húna.
Í næstu viku leggur eikarbáturinn Húni II upp í siglingu hringinn í kringum landið. Um er að ræða samstarfsverkefni Húna II,
Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Rúv. Áhöfnin á Húna er vel skipuð tónlistarfólkinu Jónasi Sig, Láru Rúnars,
Mugison, Ómari Guðjónssyni, Guðna Finnssyni og Arnari Gíslasyni sem ætla að halda 16 tónleika í sjávarbyggðum landsins. Fyrstu
tónleikarnir verða á Húsavík 3. júlí og þeir síðustu á Akureyri 20. júlí.
Rúv hefur ákveðið að fylgja siglingunni eftir með sjónvarps- og útvarpsþáttagerð og framleiddir verða 9
sjónvarpsþættir þar sem fylgst verður með ævintýrum áhafnarinnar auk útvarpsþátta á Rás 2. Einnig verða
þrjár beinar útsendingar frá Reyðarfirði, Stykkishólmi og Akureyri. Fyrsti sjónvarpsþátturinn fer í loftið á annað
kvöld kl. 19.45.
Húna II þekkja allir Akureyringar en hann er 50 ára gamall eikarbátur sem smíðaður var í skipasmíðastöð KEA.
Siglingaleið Húna II og dagskrá má sjá á ruv.is.