Framkvæmdir á vegum Landsnets vegna jarðstrengs Hólasandslínu 3 halda áfram. Á næstu vikum verða lögð ídráttarör undir Eyjafjarðará.
Í lok vikunnar hefst samsetning ídráttarröra og hefur suðugámur verið staðsettur við aðstöðu hestaleigunnar austan árinnar. Að samsetningu lokinni verður byrjað á því að leggja rör undir austurkvísl og í beinu framhaldi undir miðkvísl. Ídráttarrör hafa nú þegar verið lögð í vestari kvíslina, en það var gert í vor í tengslum við gerð nýrrar brúar yfir Eyjafjarðará.
Áætlað er að framkvæmdirnar í þessum fasa taki í heildina um 4-5 vikur.
Útivistar- og reiðleiðinni yfir „gömlu brýrnar" verður ekki lokað, en aðgengi tekur mið af framkvæmdum og má búast við umferð vinnuvéla á leiðinni auk þess sem ídráttarrör verða dregin yfir veginn. Útivistarfólk er beðið um að sýna þessu skilning og fara að öllu með gát.
Hólasandslína 3 er ný 220kV raflína milli Akureyrar og Hólasands. Markmiðið er einkum að bæta orkunýtingu, auka flutningsgetu og tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. Í Eyjafirði verður línan lögð sem jarðstrengur en loftlína frá vesturhlíð Vaðlaheiðar að Hólasandi.
Sjá líka: Lokanir í Naustaborgum vegna framkvæmda.