Afmælisvaka stendur sem hæst

Mynd tekin af heimasíðu Norðurorku.
Mynd tekin af heimasíðu Norðurorku.

Afmælisvaka stendur nú sem hæst og hófust viðburðir dagsins kl. 10 í morgun þegar formleg afhending á söguvörðum fór fram við athöfn í Innbænum. Söguvörðurnar eru gjöf Norðurorku hf. til Akureyrar í tilefni 150 ára afmælisins. Viðburðir fóru fram víða um bæinn í gærkvöldi og voru vel sóttir. Fjöldi fólks var saman kominn í rómantíska Rökkurró í Lystigarðinum þar sem garðurinn var ljósum prýddur og veittar voru viðurkenningar fyrir vel hirta garða auk þess sem ýmsir listamenn tróðu upp. Skemmtileg stemning myndaðist á Exodus tónleikum rafsveitarinnar Reyk Week í Listagilinu og Draugaganga Minjasafnsins þótti kyngimögnuð. 

Af viðburðum dagsins má nefna opnar vinnustofur í Listagilinu, Kjötkveðjuhátíð Sjónlistamiðstöðvarinnar og hátíðardagskrá á Akureyrarvelli sem hefst kl. 14.00. Þar verður boðið upp á hátíðlega dagskrá í tali og tónum, aðalræðumaður verður Akureyringurinn Páll Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.

Barnaskemmtun verður á Ráðhústorgi kl. 15.00 og afmælistónleikar með akureyrsku hljómsveitunum Baraflokknum, 200.000 naglbítum, Skriðjöklum og Hvanndalsbræðrum hefjast kl. 21.00. Tónleikarnir verða í beinni útsendingu á N4 og Rás 2 í boði Vodafone og eru í samvinnu við Exton, Nesfrakt og Rás 2. Á Græna hattinum verður sérstakt Iceland Airwaves tónleikakvöld kl. 23.00 þar sem fram koma hljómsveitirnar Mammút og Kiriyama Family og verður ókeypis aðgangur. Hápunktur Afmælisvökunnar verður svo einstök flugelda- og ljósasýning á Menningarhúsinu Hofi og á Pollinum kl. 23.30.

Dagskráin í heild sinni. Facebook síða Afmælisvöku.

Myndirnar hér að neðan tók Auðunn Níelsson í gærkvöldi.

            

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan