Davíð Stefánsson.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi er eitt ástsælasta skáld Íslendinga. Hann gaf út fyrstu ljóðabókina, Svartar
fjaðrir, árið 1919. Hún flaug beint inn að hjarta þjóðarsálarinnar þar sem hin tilfinningaþrungnu, myndrænu en ekki síst
persónulegu ljóð slógu í takt við tíðarandann. Svartar fjaðrir hafa verið gefnar út 13 sinnum síðast árið 2011.
Davíð lét ekki þar við sitja. Þær bækur sem fylgdu í kjölfarið og leikrit eins og Gullna hliðið urðu til þess að
festa Davíð í sessi sem eitt af höfuðskáldum Íslendinga á 20. öld. Ljóð Davíðs hafa orðið almenningseign og við
þau samin fjölmörg lög.
Heimili Davíðs, Davíðshús við Bjarkarstíg 6, hefur verið varðveitt sem safn eftir að hann féll frá, en þar er einnig
fræðimannaíbúð. Húsið og heimilið ber þess glöggt merki hve skáldið var mikill fagurkeri og safnari af guðs náð.
Húsakynnin bera smekkvísi hans glöggt merki, full af bókum, listaverkum og persónulegum munum, eins og hann skildi við árið 1964, næstum eins og
hans sé að vænta innan skamms.
Á laugardaginn verður boðið til hóflegrar afmælisveislu í Davíðshúsi milli 13 og 16 og er aðgangur ókeypis.
Pétur Halldórsson útvarpsmaður spjallar við gesti um kynni sín af skáldinu í gegnum þáttagerð og fyrirhugaða
hljóðleiðsögn. Þeir sem eiga sögu að segja af kynnum sínum af skáldinu eru hvattir til að koma í heimsókn og deila sögu sinni
með okkur.