4. maí er ekki kominn

Lóan er komin en 4. maí ekki. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Lóan er komin en 4. maí ekki. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sendir starfsfólki Akureyrarbæjar kveðju í vikulok með þökk fyrir vel unnin störf en minnir um leið á að 4. maí er ekki kominn og það gæti reynst afdrifaríkt ef við förum ekki áfram að öllu með gát. Tölvupósturinn frá Ásthildi er svohljóðandi:

Kæra samstarfsfólk.

Með samhentu átaki síðustu sjö vikur hefur okkur Íslendingum tekist að hefta útbreiðslu Covid-19 faraldursins og kannski hillir undir sigur í baráttunni. Miklu hefur verið fórnað, þetta hefur verið okkur dýrkeypt, en fyrr eða síðar fer landið aftur að rísa ef við högum okkur skynsamlega og förum að öllu með gát.

Fyrr í vikunni var tilkynnt að 4. maí verði gerðar örlitlar tilslakanir á samkomubanni, allt að 50 manns leyft að koma saman í stað 20 áður. Óvíst er að nokkuð annað breytist 4. maí. Samt sem áður skynja ég í kringum mig að fólk virðist halda að sigurinn sé unninn. Mig grunar að fólk sé ekki lengur jafn vel á varðbergi og e.t.v. örli nú á ofurlitlu kæruleysi okkar á meðal.

Nú spyr ég mig: Ætlum við að gleyma okkur á ögurstundu og sýna kæruleysi sem gæti kallað yfir okkur aðra bylgju faraldursins? Það má ekki gerast. Þá væri allt okkar starf, allt sem við höfum á okkur lagt í bráðum tvo mánuði, unnið fyrir gýg. Þá gæti endurreisninni sem nú er í sjónmáli seinkað um aðra tvo mánuði. Það vill enginn.

Höldum vöku okkar, höldum okkar dampi, verum áfram á varðbergi og munum að 4. maí er ekki kominn. Eftir 4. maí verður e.t.v. slakað meira á varúðarráðstöfunum ef vel gengur fram að þeim tíma. Eftir 4. maí fáum við e.t.v. verðlaun fyrir góða frammistöðu. Ef við hins vegar missum tökin á veirunni núna þá gætum við endað aftur á byrjunarreit.

Að öðru leyti hefur vikan gengið vel. Smitum hefur fækkað á Akureyri en fjölgaði aftur í dag á Íslandi. Öll starfsemi Akureyrarbæjar hefur gengið mjög vel og án vandkvæða. Um leið og ég vil þakka ykkur öllum frábæra árvekni og vel unnin störf þá langar mig samt að biðja ykkur að fara ykkur að engu óðslega - 4. maí er ekki kominn.

Góða helgi.

Hlýjar kveðjur,
Ásthildur

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan