Mynd: Vikudagur.is
Andrésar Andar leikarnir hefjast í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar í dag, sumardaginn fyrsta, en um er að ræða stærsta skíðamót
landsins með allt að 800 keppendum á aldrinum 6-15 ára. Ásamt þjálfurum, farastjórum og fjölskyldumeðlimum er gert ráð fyrir
að um 2.500 manns sæki Akureyri heim um helgina.
Keppt verður í alpagreinum, skíðagöngu og á snjóbretti. Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki um nokkurra
ára skeið, en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn. Aðstæður í Hlíðarfjalli eru með allra besta
móti og búast mótshaldarar við góðri þátttöku og miklu fjöri.
Keppendur koma frá nítján félögum á Íslandi, en auk þess munu þrír einstaklingar frá Bandaríkjunum keppa í
skíðagöngu á leikunum. Keppni hófst í dag og stendur fram á laugardag. Einnig eru veglegar kvöldvökur og verðlaunaafhendingar í lok
hvers keppnisdags.
Frétt af www.vikudagur.is.