Akureyrarbær hefur undanfarin misseri verið í mikilli sókn á samfélagsmiðlum, í takt við tíðarandann, með það fyrir augum að miðla upplýsingum á fjölbreyttan hátt og eiga í lifandi samskiptum við íbúa og aðra sem hafa áhuga á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins.
Akureyrarbær er bæði á Facebook og Instagram og hafa sífellt fleiri ákveðið að fylgja þessum síðum. Nú hefur þeim merka áfanga verið náð að 10 þúsund manns hafa látið sér líka við Facebook-síðuna. Vinum Akureyrarbæjar á Facebook hefur þar með fjölgað um ríflega eitt þúsund á árinu 2020.
Þetta er afar ánægjuleg þróun enda gegna samfélagsmiðlar sífellt stærra hlutverki, ekki síst hjá sveitarfélögum. Þótt samfélagsmiðlar komi ekki að fullu í staðinn fyrir aðrar miðlunarleiðir, og opinber heimasíða sveitarfélagsins sé mikilvægasta gáttin í miðlun upplýsinga, þá hefur Facebook reynst Akureyrarbæ góður vettvangur til þess að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri á skömmum tíma, til dæmis um snjómokstur, skyndilegar breytingar á áætlun strætó eða annarri þjónustu.
Auk þess er mikil áhersla lögð á að birta fjölbreytt efni á samfélagsmiðlum bæjarins sem er í senn fræðandi og skemmtilegt, til dæmis fréttir, myndir, myndbönd og upplýsingar um viðburði.
Um leið og vinum er þakkað fyrir samfylgdina er rétt að geta þess að það er nóg pláss fyrir fleiri. Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að bætast í hópinn.