Hefur þú einhvern tíma verið heima hjá þér og viljað fletta upp í mynddiskasafninu hjá okkur? Ekki endilega bara að finna út hvort ákveðin mynd sé til, heldur líka að fletta í gegnum ákveðnar tegundir kvikmynda? Nú er komin einföld lausn á þessu fyrir þig. Búinn hefur verið til listi á biblíu kvikmyndaáhugamannsins, IMDb (Internet Movie Database), sem inniheldur nær alla mynddiska sem safnið býður upp á.
Nær alla? spyrðu kannski hissa en ástæðan fyrir því að þessi listi inniheldur ekki allar myndirnar okkar er einfaldlega sú að ekki fundust allir titlarnir á IMDb. Þetta á sérstaklega við um fræðslumyndir, nokkrar barnamyndir og sumt íslenskt efni. Eftir lauslega yfirferð þá vantar um 10% titlanna á þennan lista. Möguleikinn er hins vegar sá að þessar titlar komi inn seinna. Og um leið og ný mynd er skráð í safnið okkar þá fer hún á þennan lista. Hann mun því bara lengjast!!
Það hefur alltaf verið stefnan hjá okkur á Amtsbókasafninu að bjóða upp á fjölbreytt efni í öllum okkar deildum. Mynddiskarnir hjá okkur eru flestir með ensku tali en við eigum kvikmyndir frá rosalega mörgum löndum í heiminum. Sumir hafa kallað þetta eitt fjölbreyttasta safn mynddiska sem hægt er að finna á landinu ... spurning hvað þér finnst?
Í þessum lista okkar (sem hýstur er á IMDb vefnum) eru titlarnir á frummálinu. Hægt er að stilla listanum upp þannig að hann sýni bara myndir af titlunum, bara titlana (textalisti) eða bæði. Ef þið kjósið t.d. að hafa bæði, þá sjáið þið líka meðaleinkunn myndarinnar hjá notendum IMDb, leikstjóra og helstu leikara, ásamt smá umsögn um efni myndarinnar.
Til hægri á síðunni (þegar þú hefur valið listann og ert að skoða hann) er dálkur sem heitir "Refine list". Þar getur þú séð hversu margar myndir eru flokkaðar sem drama-myndir, spennumyndir, gamanmyndir, hrollvekjur o.s.frv. Viltu sjá hvaða hrollvekjur eru til á safninu? Hakaðu þá við 'Horror' í listanum og þá birtist listi yfir þær myndir. Þarna geturðu líka fundið eingöngu myndir sem hafa fengið milli 8 og 10 (af 10 mögulegum) í einkunn hjá notendum IMDb... (Hvaða gamanmyndir eru til dæmist hæst skrifaðar?) Og að lokum er vert að minnast á að hægt er að leita að útgáfuárum kvikmyndanna. Hvað á safnið til dæmis mikið af myndum sem gefnar voru út fyrir 1930?
Skráðir notendur á IMDb geta svo leikið sér að því að gefa myndunum einkunn og borið saman við meðaleinkunnina sem birtist hjá hverjum titli.
Endilega kíkið á listann og leikið ykkur með hann. Ef einhverjar spurningar vakna, sendið þá póst á thorsteinn@akureyri.is - eða sláið inn athugasemd ('komment') við þessa frétt.