Hefðbundinn dagur lítur einhvern veginn svona út:
08:00 - Starfsmaður er mættur í skönnunarverkefnið stóra, sem er samstarf Akureyrarbæjar og Landsbókasafns Íslands.
09:00 - Fyrri vakt mætir, undirbýr daginn (kveikir á sjálfsafgreiðsluvélum, tölvum og prentar út miða, nær í dagblöðin, sendir út rukkanir, tekur símsvarann af ... o.fl.), fær sér kaffisopa og setur upp brosið. Hver starfsmaður fer á sína stöð* og svo er ...
10:00 - ... safnið opnað. Almenn afgreiðsla fer fram, upplýsingaþjónusta, skráningar og tengingar á ýmsum gerðum safnkosts sem hefur verið pantaður eða gefinn (bækur, geisladiskar, hljóðbækur, kvikmyndir, tímarit o.fl.), plöstun og annar frágangur, hljóðbókadeild (útibú frá Blindrabókasafni Íslands) er opin, röðun í hillur á efni sem hefur verið skilað, unnið í ýmsum áætlunum, yfirmenn vinna að mörgum verkefnum sem þarf að leysa en eru ekki endilega safngestum og notendum sýnileg, reglulega koma upp míkrófundir og aðrir fundir, ... já, það er strax mikið líf á safninu!
12:20 - Seinni vakt mætir, hádegismatur fyrri vaktar og starfsmenn skipta gjarnan um "stöðvar".
16:00 - Starfsmenn á seinni vakt skipta um "stöðvar", starfsmenn á fyrri vakt vinna að ýmsum óloknum málum. Starfsmaður á fyrri vakt við skönnunarverkefnið lýkur sínum vinnudegi.
17:00 - Fyrri vakt lýkur sínum störfum og eftir er seinni vaktin.
18:55 - Undirbúningur að lokun hefst (eða er hafinn), slökkt á tölvum og sjálfsafgreiðsluvélum, síðustu gestir safnsins afgreiddir.
19:00 - Safninu er lokað, starfsmenn seinni vaktar tékka á því að allar hurðir séu læstar og einn starfsmaður sinnir svo uppgjöri dagsins.
20:00 - Starfsmaður á seinni vakt við skönnunarverkefnið lýkur sínum vinnudegi.
------------------------
* "Stöð" hér getur þýtt A-Afgreiðsla, S-Salur (upplýsingaþjónusta), B-bakvakt í afgreiðslu, U-uppi á 2. hæð (uppröðun og upplýsingaþjónusta), F-Frágangur á safnkosti og viðgerðir, T-Skönnunarverkefnið, T-Tölvur, B-Barnastarf, P-Prentskil/skylduskil (unnið í kjallaranum), H-Heimsendingar, V-Viðgerðum á diskum, Ö-Önnur verkefni