Starfsfólk sveitarfélaga fær greitt eftir starfsmatskerfi en megintilgangurinn með starfsmati er að leggja kerfisbundið mat á störf og þær kröfur sem þau útheimta. Starfsmatið á því að tryggja að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg störf óháð því hver starfsmaðurinn er, hvers kyns hann er eða hvar á landinu hann er.
Ríflega helmingur svarenda áleit að starfsmat væri mjög eða frekar góð til þess að ná fram jafnrétti í launum. Fleiri konur en karlar virðast vera sáttar við hvernig störf eru metin í starfsmatinu en munurinn var þó ekki marktækur.
Mikill munur var á svörum eftir búsetu og þannig telja mun fleiri svarendur úr Dalvíkurbyggð að starfsmatið sé mjög eða frekar góð leið til jafnréttis í launum miðað við svarendur frá Akureyri og nágrenni. Svarendur á Akureyri telja í mun meira mæli en svarendur búsettir annarsstaðar að starfsmatið sé mjög eða frekar slæm leið til þess.
Ert þú sátt(ur) við það hvernig störf eru metin í starfsmatinu, greint eftir búsetu?(mynd)
Svarendur voru beðnir um að gera grein fyrir afstöðu sinni varðandi það hvers vegna þeir telja starfsmatið góða eða slæma leið til að ná jafnrétti í launum.
Þeir sem telja starfsmatið vera góða leið til að ná jafnrétti í launum segja margir að ástæðan sé vegna þess að það sé hlutlaus leið til að meta starfið sjálft, starfið sé rýnt ofan í kjölinn og tekið tillit til margra þátta.
Þeir sem telja starfsmatið vera slæma leið til að ná jafnrétti í launum sega margir að ástæðan sé aðallega sú að það taki ekki nægjanlega mið af starfinu, skili ekki hækkunum til allra og að oft á tíðum sé lögð áhersla á ranga hluti í viðkomandi starfi.
Hvers vegna þessir munur er til staðar er áhugavert rannsóknarefni og hvatning til KJALAR að halda áfram að skoða þessi mál.
Aðrar helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Almenn ánægja með sameiningu stéttarfélaganna og upplýsingagjöf vegna breytinganna hefur skilað sér til félagsmanna.
- Viðhorf til frekari sameiningar er jákvætt.
- Um helmingur svarenda hefur litla sem enga þekkingu á starfsemi KJALAR.
- Mikilvægasta hlutverk KJALAR er að berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna.
- Félagsmenn eru almennt þeirrar skoðunar að starfsmatið sé góð leið til að ná jafnrétti í launum en eru ekki nógu ánægðir með hvernig störf eru metin í starfsmatinu.
- Mun fleiri konur lesa KJÖLFESTU en karlar en segja má að félagsmenn séu ánægðir með blaðið og lesi það oftast nær.
- Fáir félagsmenn fara oft inn á heimasíðu KJALAR en eru þó nokkuð ánægðir með hana.
- Tölvufærni félagsmanna er yfirleitt góð. Algengast er að félagsmenn hringi í skrifstofu KJALAR eða komi á hana.
- Félagsmenn duglegir við að sækja sí- og endurmenntun.
Skýrslan í heild sinni er hér.