Í byrjun árs var kynnt ný rannsókn sem leiddi í ljós að enn er nokkur munur á launum kynjanna hjá Akureyrarbæ og strax í
kjölfarið var settur á laggirnar vinnuhópur sem hefur það hlutverk að greina vandann og gera tillögur til úrbóta. Hópurinn hefur
rýnt í fyrirliggjandi tölur og stefnir að því að kynna tillögur sínar fyrir lok októbermánaðar. Bæjarstjórinn
á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, hefur starfað með hópnum og bindur miklar vonir við að hægt verði að útrýma
kynbundnum launamun hjá Akureyrarbæ.
Á árunum 2004-2006 fór fram umfangsmikil endurskoðun á launakerfi bæjarins og í kjölfarið voru allar fastar greiðslur vegna yfirvinnu og
aksturs felldar niður. Það skilaði góðum niðurstöðum í launakönnun sem gerð var í kjölfarið en miðað við
niðurstöður síðustu könnunar virðist þurfa meira til. "Að karlar og konur í sambærilegum störfum með sambærilega menntun og
reynslu njóti ekki sömu kjara er náttúrlega ekki boðlegt. Ég vil útrýma kynbundnum launamun hjá Akureyrarbæ og legg
höfuðáherslu á að vinnuhópurinn skili tillögum sem gera okkur það kleift," segir Eiríkur Björn.
Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) gerði úttekt á launakjörum starfsfólks
Akureyrarbæjar árið 2012 og var rannsókninni sérstaklega ætlað að varpa ljósi á hugsanlegan kynbundinn launamun meðal starfsmanna
bæjarins. Helstu niðurstöður voru að óútskýrður launamunur karla og kvenna var 3,9% í heildarlaunum starfsfólks í fullu starfi
þegar búið var að taka tillit til menntunar, starfs, deildar, aldurs, starfaldurs og vinnutíma. Óútskýrður launamunur karla og kvenna var 1,5%
í dagvinnulaunum starfsfólks uppreiknuð miðað við fulla stöðu þegar búið var að taka tillit til menntunarálags, starfs, deildar,
aldurs, starfaldurs og vinnutíma, körlum í vil.
Í úttekt sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði árið 1998 á launum starfsfólks Akureyrarbæjar kom
í ljós að þegar búið var að taka tillit til menntunar, starfs, deildar, aldurs, starfaldurs og vinnutíma voru heildarlaun kvenna 8% lægri en
heildarlaun karla. Þessi munur var kominn niður í 2-3% árið 2007 en hefur nú hækkað lítillega aftur og er 3,9% í þessari nýju
rannsókn RHA. Hvað dagvinnulaunin varðar þá kom í ljós í úttektinni árið 2007 að þegar búið var að taka
tillit til áhrifaþátta voru dagvinnulaun kvenna 1,0% hærri en dagvinnulaun karla. Nú hefur þetta snúist við og hafa konur nú 1,5% lægri
dagvinnulaun en karlar að teknu tilliti til áhrifaþátta.