Sveitamennt - styrkupphæðir

Þann 27. nóvember sl. var gengið frá stofnun sameiginlegs starfsmenntasjóðs Starfsgreinasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga í samræmi við kjarasamning þessara aðila. Sjóðurinn hlaut nafnið Sveitamennt.

Stjórn Sveitamenntar hefur nú ákveðið hverjar styrkupphæðir til félagsmanna úr sjóðnum verða.

Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja til hvers félagsmanns skal samanlagt ekki vera hærri en kr. 60.000 á hverju almanaksári nema þegar um er að ræða styrk vegna aukinna ökuréttinda þar sem veittur er sérstakur styrkur.

Félagsmenn sem hafa annað móðurmál en íslensku geta sótt um allt að 90% endurgreiðslu vegna 150 stunda íslenskunáms eftir þriggja mánaða félagsaðild.

Hlutfall styrks af heildarkostnaði fer að öllu jöfnu eftir samhengi starfs viðkomandi og þess náms sem sótt er um styrk til ásamt því að taka tillit til aðkomu þess sveitarfélags sem félagsmaður starfar hjá. Við það mat skal hafa eftirfarandi til grundvallar:

  • Þegar um er að ræða nám sem félagsmaður ákveður að taka að eigin frumkvæði og er í beinu samhengi við starf viðkomandi er sjóðnum heimilt að styrkja viðkomandi um allt að 90% af kostnaði við námið.
  • Ef um er að ræða almennt og viðurkennt nám sem leggja má til grundvallar undir annað starfstengt nám s.s. nám við öldungadeild eða viðurkennda fræðslustofnun (tungumálanám, tölvunám eða annað almennt nám) er sjóðnum heimilt að styrkja viðkomandi allt að 75% af kostnaði við námið.
  • Félagsmenn eiga rétt á styrk vegna aukinna ökuréttinda að upphæð kr. 81.000.- Hver félagsmaður getur einungis fengið slíkan styrk einu sinni.
  • Veittir eru einstaklingsstyrkir vegna frístunda-/tómstundanámskeiða og er endurgreiðsla vegna þeirra 50% af kostnaði en aldrei hærri en kr. 15.000.- á ári og dregst jafnframt af heildarupphæð einstaklingsstyrks.
Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan