Stjórnkerfisbreytingar hjá Akureyrarbæ

Talsverðar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar á yfirstjórn og deildaskipan Akureyrarbæjar. Segja má að þessar stjórnsýslubreytingar komi í beinu framhaldi af verki sem unnið hefur verið að á síðustu tveimur kjörtímabilum bæjarstjórnar Akureyrar eða frá 1998.

Breytingarnar hafa umfram allt haft eftirfarandi markmið:

  1. Að færa ábyrgð og ákvarðanir sem næst þeim sem eiga að njóta þjónustu sveitar­félagsins. Í þessu felst að auka skilvirkni stjórnsýslunnar og flýta afgreiðslu mála þannig að embættismenn og nefndir hafi umboð til að afgreiða mál án þess að ákvarðanir þurfi staðfestingu bæjarstjórnar.
  2. Að skýra ábyrgðarmörk milli kjörinna fulltrúa og embættismanna bæjarins. Hlutverk kjörinna fulltrúa er að móta stefnu fyrir bæjarfélagið um það hvaða þjónustu það á að veita íbúunum og hvernig hún skuli veitt og jafnframt eiga þeir að líta eftir framkvæmd stefnunnar. Embættismenn eiga að bera ábyrgð á að framkvæma stefnuna en hafa frelsi til að ákveða með hvaða aðferðum það er gert að því tilskildu að fyllstu hagkvæmni sé gætt.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á árinu 2006 eru framhald af fyrri aðgerðum og miða að sömu markmiðum en hafa jafnframt sértæk markmið:

  1. Að stuðla að bættri yfirsýn yfirstjórnar yfir allt bæjarkerfið en jafnframt að auka sjálfstæði og ábyrgð stjórnenda sem heyra beint undir framkvæmdastjórn. Uppskipting bæjarkerfisins í svið frá því um 1990 átti að bæta yfirsýn bæjarstjóra og bæjarráðs yfir heildarstarfsemina þar sem sviðsstjórarnir voru tengiliðir deilda við yfirstjórnina. Gallinn var hinsvegar sá að deildarstjórar litu ekki sem skyldi á sig sem hluta af heildinni og sviðsstjórum hætti til að koma fram gagnvart yfirstjórn bæjarins sem hagsmunagæslumenn starfseminnar sem undir þá heyrði. Í svo flókinni og viðamikilli starfsemi sem bæjarkerfið er orðið eftir að sveitarfélagið hefur tekið að sér málefni fatlaðra, öldrunarþjónustu og rekstur heilsugæslustöðvarinnar, reynir meira en nokkru sinni fyrr á yfirsýn yfirstjórnar. Afnám sviðaskipulagsins nú felur í sér að aukin ábyrgð færist til deildarstjóra sem hafa nú ekki annan beinan yfirmann en bæjarstjóra. Jafnframt er yfirstjórnin styrkt með ráðningu bæjarritara í fullt starf en meginhlutverk hans er að fara í umboði bæjar­stjóra með verkstjórnarvald yfir deildarstjórum og öðrum starfsmönnum sem heyra beint undir bæjar­stjóra. Bæjarstjóri og bæjarritari mynda framkvæmdastjórn bæjarins ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra sem vegna eðlis verkefna þeirra hafa nauðsynlega heildarsýn yfir bæjarkerfið.
  2. Að bæta skilvirkni starfseminnar með því að vista skyld verkefni undir einum hatti, ýmist með því að sameina verkefni mismunandi nefnda undir nýrri nefnd eða með því að færa verkefni frá einni nefnd til annarrar þar sem þau eru talin eiga betur heima. Helstu breytingarnar nú eru þessar:
  • Ný nefnd, samfélags- og mannréttindanefnd, hefur leyst áfengis- og vímuvarna­nefnd og jafnréttis- og fjölskyldunefnd af hólmi auk þess sem nýja nefndin tekur við tómstundamálum frá fyrrverandi íþrótta- og tómstundaráði – sem nú heitir íþróttaráð – og Mennta­smiðjunni frá félagsmálaráði. Segja má að samfélags- og mannréttindanefnd fáist við ólögbundna uppeldis- og mannræktarstarfsemi auk mannréttindamála sem eru ekki falin öðrum nefndum sérstaklega. Nefndin hefur umsjón með allri starfsemi sem fram fer í Rósenborg auk þess sem hún fjallar um jafnréttisstefnu og fjölskyldustefnu bæjarins.
  • Stjórn Akureyrarstofu er líka ný nefnd sem leysir menningarmálanefnd af hólmi og tekur við kynningar- og markaðsmálum sem heyrðu áður undir stjórnsýslu­nefnd en auk þessara málaflokka fjallar stjórn Akureyrarstofu um ferðamál og atvinnumál.
  • Umsjón sorpmála færist frá framkvæmdaráði til umhverfisnefndar en sú nefnd tekur auk þess við verkefnum náttúruverndarnefndar og ennfremur annast hún eftirlit með umgengni á lóðum og opnum svæðum í bæjarlandinu.
  • Framkvæmdadeild heyrir nú undir báðar nefndirnar, framkvæmdaráð og umhverfisnefnd en deildarstjóri nefnist bæjartæknifræðingur. Slökkvilið Akureyrar og Strætisvagnar Akureyrar heyra nú aftur undir framkvæmdadeild.
  • Skipulagsnefnd er nýtt nafn á þeirri nefnd sem áður hét umhverfisráð og nafn deildarinnar sem heyrir undir nefndina breytist úr umhverfisdeild í skipulags­deild. Verkefni deildarinnar eru nánast óbreytt undir stjórn skipulags- og byggingafulltrúa.

Smelltu hér til að skoða nýtt skipurit deilda fyrir Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan