Um 140 starfsmenn grunnskóla Akureyrarbæjar, þ.e. skólaliðar, matráðar, húsverðir, ritarar og stuðningsfulltrúar, tóku
þátt í námskeiði hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) dagana 19. og 20. ágúst.
Námskeiðið er hluti af verkefninu ,,Að verða hluti af heild" sem var nú haldið í fimmta skiptið á starfsdögum í byrjun
skólaársins. Námskeiðið er hluti af fræðsluáætlun sem skipulögð var í samstarfi við SÍMEY í kjölfar
MARKVISS þarfagreiningarverkefnis fyrir starfsfólk skólanna.
Í ár var boðið upp á fræðslu og þjálfun um sjálfsstyrkingu og liðsheild, um börn með sjúkdómagreiningar
(ofnæmi og sykursýki) og um mál- og talgalla.
Leiðbeinendur voru Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur, Valdís Jónsdóttir talmeinafræðingur og Gróa Björk
Jóhannesdóttir barnalæknir.
Styrktaraðilar námskeiðsins eru Mannauðssjóður Kjalar og Sveitamennt.