Í gær, miðvikudaginn 28. janúar, var send út spurningakönnun til allra starfsmanna Akureyrarbæjar sem eru
í meira en 30% starfshlutfalli. Könnunin var send á netföng starfsmanna en þeir sem hafa ekki netföng munu eiga þess kost að svara henni með
öðrum hætti.
Í könnuninni er spurt um líðan, heilsu og starfstengd viðhorf starfsfólks sveitarfélagsins eins og undanfarin ár en í þetta skipti
verður könnunin heldur styttri. Starfsfólk er vinsamlega beðið um að svara spurningalistanum eins ítarlega og það treystir sér til. Það
tekur u.þ.b. 10-15 mínútur.
Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar sem gagnast til að stuðla að bættu starfsumhverfi og uppfylla þannig markmið í mannauðsstefnu og
jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar.
Fyrri kannanir hafa m.a. leitt til aðgerða eins og fræðslu um vellíðan á vinnustað, viðbragða við einelti á vinnustöðum,
samþykkt hefur verið Velferðarstefna, stofnað Heilsuráð Akureyrarbæjar og heilsueflingarnefndir á flestum vinnustöðum.
Könnunin er unnin í samstarfi við Hjördísi Sigursteinsdóttur aðjúnkt við Háskólann á Akureyri og mun hún sjá um
að safna gögnum og vinna úr þeim.
Hafi starfsfólk spurningar eða lendi í vandræðum með að nálgast könnunina skal hafa samband við viðkomandi yfirmann eða Ölmu Rún Ólafsdóttur verkefnastjóra á
starfsmannaþjónustu (sími 4601074/8691805, tölvupóstur almarun@akureyri.is) eða Hjördísi Sigursteinsdóttur aðjúnkt við HA með
tölvupósti á netfangið hjordis@unak.is.
Starfsfólk er hvatt til þess að svara spurningalistanum og leggja þannig vinnustaðnum lið og um leið stuðla að bættu
starfsumhverfi fyrir starfsfólk Akureyrarbæjar.