Í mörgum tilvikum eru starfsmenn Akureyrarbæjar launþegar hjá öðrum vinnuveitendum en Akureyrarbæ og þurfa því að passa að tekið sé tillit til þeirra launa við útreikning staðgreiðslu á árinu 2010.
Ef starfsmenn kjósa svo er hægt að taka tillit til launa frá öðrum vinnuveitanda við útreikning launa hjá Akureyrarbæ en að sjálfsögðu geta starfsmenn einnig valið að tilkynna hinum vinnuveitandanum/-endunum um laun hjá Akureyrarbæ.
Ef óskað er eftir að Akureyrarbær taki tillit til launa annars staðar frá við útreikning staðgreiðslu launa þarf að senda beiðni þar um, annað hvort skriflega eða í tölvupósti á viðkomandi launafulltrúa.
Í beiðninni þarf að koma fram nafn og kennitala launaþega, frá hvaða tíma og hvaða launafjárhæð Akureyrarbær á að miða við sem laun á mánuði frá öðrum vinnuveitanda við útreikning staðgreiðslu launa hjá Akureyrarbæ.
Athugið að hér er átt við meðaltals heildarlaun frá öðrum vinnuveitanda/-endum að frádregnu 4% framlagi launþega í lífeyrissjóð og að frádregnu allt að 4% framlagi launþega í séreignarlífeyrissjóð ef um það er að ræða.
Frá og með 1. janúar 2010 er staðgreiðsla launa reiknuð í þremur þrepum.
Útreikningur á hverju þrepi er sem hér segir:
Af fyrstu 200.000 kr (0-200.000 kr.) er reiknuð 37,22% staðgreiðsla.
Af næstu 450.000 kr (200.001 kr. -650.000 kr.) er reiknuð 40,12% staðgreiðsla.
Af launafjárhæð umfram 650.000 kr. (650.001- ) er reiknuð 46,12% staðgreiðsla.
Frá reiknaðri staðgreiðslu dregst síðan persónuafsláttur sem er 44.205 kr. á mánuði árið 2010.
Ef í ljós kemur við álagningu 2011 vegna tekna ársins 2010 að launþegi hefur vangreitt staðgreiðslu þá er innheimt 2,5% álag við álagningu.
Ef einhverjar spurningar vakna, endilega hafið þá samband við Starfsmannaþjónustu í síma 460 1000 eða björgl@akureyri.is.
Nánari upplýsingar má finna á vef ríkisskattstjóra www.rsk.is