Skyggnir hefur annast rekstur tölvukerfa Akureyrarbæjar síðan í janúar 2002 en er um þessar mundir að afhenda Þekkingu það verkefni eftir útboð sem fór fram á fyrri hluta síðasta árs. Af þessu tilefni var starfsmönnum Skyggnis sem hafa þjónað Akureyrarbæ síðustu árin boðið í morgunkaffi í Ráðhúsinu og þeim færðar gjafir að skilnaði. Meðfylgjandi mynd var tekin af Skyggnismönnum við þetta tækifæri.
Lengst til vinstri er Aðalgeir Sævar Óskarsson sem hefur annast viðveruna í Ráðhúsinu síðan í september 2005. Annar frá vinstri er Sigurður Arnar Ólafsson sem verið hefur viðskiptastjóri Skyggnis á Akureyri síðastliðið ár. Þriðji frá vinstri er Einar Hólm Davíðsson sem starfaði í tölvudeild Akureyrarbæjar frá 1998, þá nýkominn frá námi í Skövde, til haustsins 2000 en þá tók Nett (síðar ANZA) við rekstri tölvukerfa bæjarins. Þegar Skyggnir tók við rekstrinum 2002 var Einar Hólm orðinn starfsmaður Skyggnis og hefur hann haldið utan um rekstur kerfanna síðan. Lengst til hægri er Einar Guðjónsson sem hóf störf hjá Skyggni haustið 2005 og hefur fyrst og fremst sinnt stofnunum bæjarins og bæjarskrifstofunum í Glerárgötu 26 en að undanförnu hefur hann verið kerfisstjóri yfir tölvukerfum bæjarins.
Starfsmenn Akureyrarbæjar þakka Skyggnismönnum fyrir ágætt samstarf á undanförnum árum og óska þeim velfarnaðar í nýjum störfum.