Nýr vefur Akureyrarbæjar hefur verið opnaður á slóðinni Akureyri.is.
Vefurinn hefur verið í undirbúningi og vinnslu undanfarið rúmt ár í samstarfi við hönnunar- og hugbúnaðarhúsið Hugsmiðjuna. Starfsfólk þjónustu- og menningarsviðs Akureyrarbæjar hefur leitt verkefnið en fulltrúar allra sviða hafa komið að vinnunni.
Við þróun á vefnum var meðal annars lögð áhersla á notendavæna og nútímalega hönnun, aðgengi, góða leit, lifandi miðlun og að vefurinn virki vel í öllum tækjum, einkum snjallsímum.
Jafnframt var eitt af markmiðum að samhæfa síður stofnana bæjarins. Því er gleðilegt að í fyrsta fasa séu, samhliða aðalvefnum, opnaðir nýir vefir Amtsbókasafnsins, Iðavallar og Lundarskóla sem og sérstök vefsvæði fyrir Hrísey og Grímsey. Stefnt er að því að fleiri leik- og grunnskólar bætist við á næstu mánuðum og verði hluti af sama vefkerfi.
Þrátt fyrir að vefurinn sé formlega opinn þá er vinnu við nýjan vef ekki að fullu lokið og ýmis atriði enn í vinnslu og frekari þróun. Ef þið hafið hugmyndir fyrir vefinn eða sjáið eitthvað sem má betur fara þá væri vel þegið að fá ábendingar á netfangið vefstjorn@akureyri.is.