Ný mannauðsstefna samþykkt í bæjarstjórn

Þann 17. mars sl. var ný mannauðsstefna Akureyrarbæjar samþykkt í bæjarstjórn.

Síðastliðið sumar skipaði bæjarstjóri starfshóp til að vinna að endurskoðun á starfsmannastefnu Akureyrarbæjar. Starfshópurinn hóf störf í september og fundaði vikulega fram í desember, alls 15 sinnum. Ýmsir aðilar voru kallaðir til samráðs s.s. jafnréttisráðgjafi, bæjarlögmaður og starfsmannastjóri.

Starfshópurinn lagði til breytta uppsetningu á stefnunni þar sem markmið og aðgerðir til að ná markmiðum eru sett fram með mjög skýrum hætti. Meginmarkmið stefnunnar er að tryggja annars vegar hæfni og hins vegar starfsánægju starfsfólks. Hverju undirmarkmiði fylgja ákveðnar aðgerðir og tilgreindir eru þeir aðilar sem bera ábyrgð á framkvæmd þeirra.

Almenn réttindi starfsmanna eru tilgreind í sérstökum kafla ásamt þeim skyldum sem starfsfólk hefur gagnvart Akureyrarbæ. Að lokum eru settar fram aðgerðir til þess að tryggja eftirfylgni með stefnunni.  

Starfshópurinn lagði til að stefnan yrði kölluð „mannauðsstefna“ í stað „starfsmannastefna“ og er það í samræmi við þróun í þessum málaflokki.

Í febrúar 2009 voru drög að nýrri mannauðsstefnu kynnt og óskað var eftir athugasemdum frá starfsfólki. Margar góðar ábendingar bárust frá starfsfólki og nýtti starfshópurinn margar þeirra við lokafrágang vinnunnar.

Nýju mannauðsstefnuna má nálgast hér.



Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan