Zane Brikovska frá Alþjóðastofu á Akureyri ásamt Ágústi Hirti Ingþórssyni, forstöðumanni Erasmus+ á Íslandi. Mynd: Arnaldur Halldórsson.
Alþjóðastofa Akureyrarbæjar hlaut nýverið 33,7 milljón króna styrk úr menntahluta Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins til að vinna verkefni á sviði fullorðinsfræðslu.
Verkefnið, sem Zane Brikovska verkefnastjóri Alþjóðastofu leiðir, nefnist "Migrant Women as Healthcare Mentors – MEDICE" og snýst um að konur af erlendum uppruna verði leiðbeinendur innan heilbrigðiskerfis. Markmið verkefnisins er að bæta og auðvelda aðgengi kvenna af erlendum uppruna og barna þeirra að heilbrigðisþjónustu í nýju landi með því að þróa nýjungar í tungumálakennslu sem tengjast heilsugæslu.
Mannauðsdeild Akureyrarbæjar fékk styrk fyrir verkefni sem nefnist Þróun og nýsköpun í fræðslumálum og kennsluaðferðum.
Brekkuskóli fékk styrk í tengslum við starfsþróun og endurmenntun og Giljaskóli fékk styrk fyrir verkefni sem nefnist Þvermenningarleg verkefnastjórnun; sköpunarferlið, tækni og þjóðfélagslegt samtal.
Öll verkefnin eru styrkt af Erasmus +, samstarfsáætlun ESB.