Niðurstöður starfsmannakönnunar um heilsu, líðan og starfstengd viðhorf starfsfólks hjá Akureyrarbæ liggja nú fyrir. Könnunin var
lögð fyrir starfsmenn Akureyrarbæjar í þriðja skiptið sl. vor en áður var könnunin lögð fyrir veturna 2010 og 2011.
Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir stjórnendum deilda og stofnana bæjarins á sérstökum fundi þann 11. september síðastliðinn en
þeim er ætlað að miðla niðurstöðunum áfram til starfsfólks síns. Heildarskýrsla er tilbúin og er hún
meðfylgjandi þessari frétt.
Könnunin er liður í doktorsverkefni Hjördísar Sigursteinsdóttur í félagsfræði við Háskóla Íslands og hefur
hún nú verið framkvæmd alls þrisvar sinnum. Könnunin náði til allra starfsmanna Akureyrarbæjar í meira en 30% starfi og alls
svöruðu 1031 starfsmenn. Svarhlutfallið var gott eða 63,8% og niðurstöðurnar gefa þar af leiðandi nokkuð góða vísbendingu um
hvernig starfsfólki bæjarins líður í starfi.
Nær 80% þeirra sem tóku þátt í könnuninni eru konur sem er lítið eitt hærra hlutfall en hlutfall kvenna meðal starfsmanna
bæjarins í heild þannig að konur voru heldur duglegri að svara en karlar. Um 65% svarenda hafði starfað lengur en 5 ár hjá Akureyrarbæ
þannig að óhætt er að segja að starfsmannavelta hjá bænum sé lítil sem bendir til að starfsfólk sé almennt
ánægt í starfi.
Niðurstöður könnunarinnar eru þegar á heildina er litið góðar og virðist starfsfólk Akureyrarbæjar almennt ánægt
í starfi. Niðurstöður gefa til kynna að 81,8% starfsmanna séu mjög eða frekar sammála fullyrðingunni „Þegar á heildina er
litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu“. Auk þess telur meirihluti starfsmanna eða 77,1% góðan starfsanda ríkja á
vinnustaðnum fremur oft, mjög oft eða alltaf.
Starfsfólki sem farið hefur í formlegt starfsmannasamtal á undanförnum tveimur árum hefur fjölgað lítillega frá síðustu
könnun. Nú segjast 70,9% hafa farið í slíkt samtal einu sinni eða oftar en í síðustu könnun voru þeir 70,7%.
Stofnaður hefur verið starfshópur sem rýna mun niðurstöður könnunarinnar og gera tillögur um aðgerðir.
Í heildarskýrslu könnunarinnar má finna allar frekari upplýsingar. Skýrsluna ásamt fyrri skýrslum má finna hér.