Launaseðlar aðgengilegir í heimabankanum

Frá og með 1. nóvember 2006 getur starfsfólk Akureyrarbæjar skoðað launaseðlana sína í heimabankanum. Með netlaunaseðlum skrá fyrirtæki launaupplýsingar til birtingar í netbönkum starfsmanna. Þannig liggja engar trúnaðarupplýsingar á víðavangi ásamt því að peningar og tími sparast.

Með þessu móti munu launþegar hafa aðgengilegt yfirlit yfir launaseðla sína aftur í tíma. Ljóst er að þessi aðferð mun minnka verulega líkurnar á að launaupplýsingar berist í rangar hendur. Upplýsingarnar verða óaðgengilegar öllum óviðkomandi og mannshöndin kemur hvergi nálægt þar sem þær flæða beint úr launakerfi í Reiknistofu bankanna og inn í heimabanka viðkomandi starfsmanns. Launaseðlarnir munu aðeins birtast í netbanka þess banka sem starfsmaður er með launareikning í.

Starfsfólki Akureyrarbæjar gefst nú kostur á því fá launaseðla sína eingöngu á netinu og afþakka útprentaða launaseðla. Þannig getur verulegur pappír sparast ásamt vinnu við prentun og dreifingu á launaseðlum.

Ef starfsfólk vill afþakka útprentaða launaseðla þurfa viðkomandi að hafa samband við starfsmannaþjónustu Akureyrarbæjar, annað hvort í síma 460 1060 eða með tölvupósti á netfangið skraning@akureyri.is.

Leiðin að launaseðlunum

Í heimabönkum Landsbankans, KB-banka og Sparisjóðanna eru hnapparnir eða valorðin þau sömu, fyrst er valið Yfirlit, síðan Rafræn skjöl, síðan Tegund og loks er valin tegundin Launaseðlar.

Í heimabanka Glitnis er valið Yfirlit og síðan Netyfirlit, síðan Tegund og loks Launaseðlar.




Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan