Kertamóttaka í Ráðhúsinu og Glerárgötu 26
Hjá Plastiðjunni Bjargi – Iðjulundi (PBI) starfa um 50-55 einstaklingar með skerta starfsgetu auk leiðbeinenda og starfsfólks.
Framleiðslan hjá PBI er fjölþætt, má þar nefna kerti, raflagnaefni, skilti, vinnuvettlinga og rúmföt.
Til útikertaframleiðslu eru notuð kerti, sem ekki eru talin söluhæf, og vaxafgangar eða svokallað úrgangsvax
Hér á landi hefur lítil áhersla verið lögð á endurnýtingu vaxafganga. Þess í stað hefur vaxið verið urðað með þeim tilkostnaði og mengun sem slíku fylgir.
Rétt er að hvetja alla til þess að skila kertavaxi til endurnýtingar og því hafa verið sett upp safnbox í þjónustuanddyri Ráðhússins og á 1. hæð í Glerárgötu 26.
Móttaka á kertastubbum er einnig í Endurvinnslunni sem og í verslun PBI.
Þess má geta að allar framleiðsluvörur PBI fást í versluninni að Furuvöllum 1, sem er opin kl. 8.00-16 alla virka daga.