Skráning opnaði í dag á www.lifshlaupid.is fyrir Lífshlaupið 2018 sem hefst 31. janúar.
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra. Markmið þess er að hvetja til þess að fara eftir ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlugserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.
Eins og í fyrra og árið á undan verður keppni á milli vinnustaða Akureyrarbæjar, en bæði árin stóð Oddeyrarskóli uppi sem sigurvegari eftir harða baráttu við aðra vinnustaði. Í ár vonumst við til að enn fleiri vinnustaðir blandi sér í baráttuna. Að keppni lokinni verða svo veitt verðlaun fyrir þann vinnustað sem stendur sig best.
Á heimasíðunni lifshlaupid.is er að finna mikið af upplýsingum um átakið sem og leiðbeiningar um skráningu. Best er að smella á „vinnustaðakeppni" og þar má finna allar þær upplýsingar sem tengjast keppninni.
Líkt og ávallt hvetur Heilsuráð Akureyrarbæjar alla til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum.