Miðvikudaginn 22. október stóð Heilsuráð Akureyrarbæjar fyrir fyrirlestrinum „Allt að vinna engu að tapa“ þar sem Sonja Sif
Jóhannsdóttir, master í íþrótta- og heilsufræðum fjallaði um mikilvægi góðrar næringar sem grunn að
góðri heilsu. Góð mæting var á fyrirlesturinn sem fór fram í Rósenborg og fullvíst að gestirnir gengu út fullir af
fróðleik um hvernig má gera betur í mataræðinu.
Heilsuráð mun bjóða upp á dans í nóvember sem verður auglýstur þegar nær dregur.
En það er víðar sem heilsuefling er á milli tannanna á starfsmönnum Akureyrarbæjar því Heilsueflingarnefndir eru starfræktar
á flestum vinnustöðum sem standa fyrir uppákomum fyrir sína vinnustaði. Oddeyrarskóli hefur til að mynda verið á miklu flugi síðustu
vikur. Þar var blásið til heilsuviku í haust þar sem ýmislegt var tekið fyrir er varðar andlega og líkamlega heilsu. Þátttaka
starfsmanna var mjög góð og það var mikið stuð á starfsfólki þessa viku.
Lesa má um uppákomur vikunnar á heimasíðu skólans.
Heilsueflingarnefndin í Oddeyrarskóla hefur einnig komið á vikulegum gönguferðum sem hafa verið nokkuð vel sóttar og svo var skipulagður
Zumbað tími og nú er á stefnuskránni að hafa jógatíma.
Vel gert Oddeyrarskóli!
Er heilsuefling í gangi á þínum vinnustað? Deildu því með okkur og sendu línu á formann Heilsuráðs Akureyrarbæjar
á netfangið almarun@akureyri.is