Í byrjun árs 2012 skipaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp til að setja fram aðgerðaráætlun
í því skyni að fjölga þeim sem sækja um leikskólakennaranám og stuðla þannig að nauðsynlegri nýliðun meðal
leikskólakennara. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu um
aðgerðir til eflingar leikskólastigsins. Í kjölfar skýrslunnar var ákveðið að fara af stað með kynningarátak til að kynna
starfið í leikskólanum og námsleiðir fyrir leikskólastarfsfólk.
Átakingu er hleypt af stokkunum í dag, 16. apríl, undir kjörorðinu Framtíðarstarfið. Átakið fer m.a. fram á Facebook og
á vefsíðunni http://framtidarstarfid.is/, en þar eru m.a. að finna myndbönd með viðtölum við starfsmenn
leikskóla og nema í leikskólakennarafræðum sem gefa upplýsingar um fjölbreytni leikskólastarfsins og námleiðir.
Átakinu er ætlað að auka jákvæða ímynd leikskólastigsins og menntunarstig starfsmanna leikskóla með von um að fleiri sæki
leikskólakennaranám svo nauðsynleg nýliðun megi verða meðal leikskólakennara. Það mun án efa skila sér í auknum
gæðum í skólastarfinu og fagmennsku og efla um leið leikskóla sem áhugaverða vinnustaði.
Áhugasamir eru hvattir til að heimsækja heimasíðu verkefnisins og „líka við“ Facebook síðu þess.