Kæra samstarfsfólk,
Íslensk þjóð siglir nú krappari sjó en þekkst hefur um áratuga skeið. Á slíkum tímum er mikilvægt að við stöndum saman, látum ekki bugast og styðjum hvert annað. Oft var þörf en nú er nauðsyn að við sýnum hvert öðru skilning, hlýhug og traust. Ef við snúum bökum saman þá eru okkur allir vegir færir.
Á umbrotatímum sem þessum vitum við stundum ekki hverju er að treysta, en mig langar að nota þetta tækifæri til að fullvissa ykkur um að Akureyrarbær stendur afar traustum fótum fjárhagslega. Óhjákvæmilega höfum við þurft að endurskoða hluta af framkvæmdaáætlun okkar, ekki síst vegna gengisfalls krónunnar og dýrari aðfanga, en við trúum því að þetta séu aðeins tímabundnar ráðstafanir og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að atvinnulíf í bænum verði áfram eins gott og frekast er kostur.
Að mínu mati er einn helsti styrkleiki þessa bæjarfélags sú samheldni sem íbúarnir sýna hver öðrum og sá félagsauður sem við búum að. Þessa eiginleika skulum við nú rækta með okkur og leggja okkur fram um að sýna bjartsýni, æðruleysi og jákvæðni framar öllu öðru. Sjaldan hefur verið jafn mikil þörf á því og nú að við tileinkum okkur þau gildi sem fjölskyldubærinn Akureyri stendur fyrir.
Styðjum vel við bakið hvert á öðru, innan vinnustaðarins sem utan, og höfum líka hugfast að öll él birtir upp um síðir.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri