Endurmat starfa í starfsmati

Endurmati á störfum sem fengu mat í árslok 2004 er nú lokið. Þar var um að ræða fjölmenn störf en mat á þeim var byggt á viðtölum við allt að 10 starfsmenn í hverju starfi víðsvegar um landið. Annarsvegar fór endurmatið fram í starfsmatsteymi Launanefndar sveitarfélaga með kerfisbundnum samanburði starfa („þverkeyrslu“) sem lauk í janúar 2007. Hinsvegar fór fram mat á endurmatsbeiðnum starfsmanna sem sendar voru til endurmatsteyma í hverju sveitarfélagi sl. vetur. Endurmatsteymin fóru yfir umsóknirnar og sendu niðurstöður sínar til starfsmatsteymis LN sem hefur unnið að endurmatinu síðustu mánuði. Tæplega 200 umsóknir bárust um endurmat á um 60 störfum.

Launaleiðréttingar sem leiða af endurmatinu eru greiddar nú um miðjan nóvember og um mánaðamótin nóvember/desember. Leiðréttingar eru greiddar frá 1. febrúar 2005. Leiðréttingarnar eru greiddar á launum ársins 2007 en miðað er við gildandi tengingu starfsmats á hverju ári frá 2005-2007. Launaleiðrétting er því skv. launatöflunni eins og hún er nú en röðun í launaflokk á hverju ári 2005, 2006 og 2007 fer eftir hinni nýju starfsmatsniðurstöðu og ákvæðum kjarasamninga. Til viðbótar launaflokkum samkvæmt nýju starfsmatsniðurstöðunni geta svo komið launaflokkar vegna samþykktar Launanefndar sveitarfélaga frá janúar 2006.

Við leiðréttingar er tekið mið af persónubundnum þáttum hvers starfsmanns eins og þeir eru á hverjum tíma. Með persónubundnum þáttum er átt við launaþrep, símenntunarálag og álag vegna viðbótarmenntunar starfsmanns.

Eingreiðslur á árunum 2006 og 2007 skv. samþykkt Launanefndar sveitarfélaga árið 2006 eru einnig leiðréttar þar sem um þær er að ræða.

Margir vaktavinnustarfsmenn fá leiðréttingar í þessari útborgun. Til að starfsmenn fái sem gleggsta mynd af því hvað er verið að leiðrétta á hverju tímabili eru launategundir ekki dregnar saman á launaseðlum heldur eru birtar sundurliðaðar upplýsingar um hverja launategund (mánl. yfirvinna, 33%álag o.s.frv.) og hversu mikið er greitt fyrir hvert tímabil. Þetta þýðir að hjá starfsmönnum sem unnið hafa allt tímabilið í vaktavinnu eru launaseðlarnir í lengra lagi enda um langt tímabil að ræða. Starfsmenn geta hinsvegar með þessu vinnulagi rakið sig á launaseðlinum í gegnum söguna og jafnvel borið tölurnar saman við launaseðla frá tímabilinu sem um ræðir og þannig staðfest að rétt sé reiknað og að þeir fái það sem þeim ber.

Störf sem metin voru á árinu 2005 og síðar hafa verið kölluð 0-störf. Fyrst og fremst er þar um að ræða störf sem í eru einstaklingar fremur en hópar. Starfsmönnum í 0-störfum mun innan tíðar gefast kostur á að óska eftir endurmati á störfum sínum.



Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan