Bæjarins Bestu - Dagný Davíðsdóttir

Nafn: Dagný Davíðsdóttir

Vinnustaður:

Amtsbókasafnið á Akureyri, Verkefnastjóri viðburða og kynningarmála.

 

Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi:

Ég sé um ýmis ólík verkefni í mínu starfi. Ég skipulegg viðburði og hef yfirsýn með öllum viðburðum hússins. Einnig finn ég sýningar í sýningarrýmið okkar hér í húsinu. Ég bý til auglýsingar og efni á samfélagsmiðla safnsins sem er mjög skemmtilegt. Mikilvægt að auglýsa viðburði og fjölbreyttan safnkost okkar en einnig eða reyna að vera svolítið skemmtileg og bara minna á okkur. Einnig tek ég vaktir í afgreiðslunni sem er bæði skemmtilegt og mikilvægt. Það er gott að hitta gesti safnsins og vera þannig með puttann betur á púlsinum hvað er vinsælt. Gestirnir okkar eru líka bara svo skemmtilegir.

 

Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn?

Það er alltaf eitthvað skemmtilegt fram undan hjá okkur. Núna eftir áramót ætlum við að koma af stað reglulegum viðburði sem við kynntumst í vinabæ Akureyrar í Finnlandi, Lahti. Þar býður bókasafnið mismunandi félögum og hópum að koma og kynna starfsemi sína á

safninu mánaðarlega. Þetta er hugsað fyrir fullorðna til að kynnast nýjum áhugamálum og nýju fólki yfir kaffibolla. Við hlökkum til að kynna þetta betur fyrir fólki og vonum að þetta gangi eins vel og hjá vinum okkar í Lahti.

 

Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað?

Hér er mjög gott að vera svo litlar sem stærri hefðir eru skemmtilegar. Við hittumst á fimmtudögum í morgunkaffi sem er alltaf gaman, en það er extra skemmtilegt þegar það eru hin mánaðarlegu afmæliskaffi. Í janúar og febrúar eru þó bóndadags- og konudagskaffi í staðinn. Þetta er alltaf mikil veisla og ég held að allir mæti svangir til að geta smakkað sem flestar sortir!

 

Aðeins um þig?

Ég er yngst fjögurra systra, alin upp á Dalvík og flutti til Akureyrar til að stunda nám á Textílbraut í Verkmenntaskólanum. Þaðan fór ég svo suður í þjóðfræðinám við Háskóla Íslands. Ég er svo hálfnuð með master í upplýsingafræði. Ég á góðan mann og á þrjú börn sem eru í Glerárskóla og á Klöppum.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum?

Mér finnst gaman að lesa og hlusta á bækur, fara í bíó, taka göngutúra og fara í heita tíma í World Class Skólastíg. Ég hlusta mikið á tónlist og eru Taylor Swift, Billie Eilish og Kacey Musgraves í miklu uppáhaldi hjá mér. Þegar ég sofna ekki snemma finnst mér líka gaman að horfa á góða sjónvarpsþætti, helst einhver góð ævintýri. Annars er húsið alltaf fullt af börnum og það vantar ekki stuðið á bæinn núna þegar við höfum líka bætt við hvolpi.

 

Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?

Mér finnst klárlega skemmtilegra að baka, þó að eldhúsið sé oftast á hvolfi eftir ósköpin, sérstaklega þegar börnin mín og vinir þeirra hjálpa til.

 

Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur?

https://www.gotteri.is/2021/10/28/marengsterta/

Þessi marengsterta er mín uppáhalds. Myndin er frá afmæli dóttur minnar þar sem við gerðum kökuna að stóru V-i og skelltum hestum ofan á í stíl við þemað það árið.

 

Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á?

Akkúrat núna er ég að lesa A Court of Wings and Fury sem er þriðja bókin í ACOTAR seríu Sarah J. Maas. Þær hafa farið sigurför um TikTok og eru sérstaklega vinsælar hjá ungum konum. Þær og Fourth Wing bækur Rebecca Yarros eru vinsælar hjá þeim sem lásu Harry Potter sem börn, ég mæli með þeim fyrir gamla Potterhausa!

Ég er að horfa á Snæholt með krökkunum mínum á RÚV, það er mikil eftirvænting eftir nýjum þætti á hverjum degi enda æsispennandi hlutir að gerast. Mér þykir einstaklega vænt um þessar stundir fyrir framan sjónvarpið með krökkunum í desember yfir jóladagatalinu á hverju ári.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan