Þann 7. maí nk. hefst átakið ,,Hjólað í vinnuna" á vegum ÍSÍ. Átakinu hefur undanfarin ár verið tekið ákaflega vel og þátttakendum fjölgað mikið á milli ára. Þátttakendur hjóluðu til að mynda í fyrra samtals 311,5 hringi í kringum landið!
Meginmarkmið ,,Hjólað í vinnuna" er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Allir sem nýta eigin orku til að ferðast til og frá vinnu eru gjaldgengir þátttakendur þ.e. hjóla, skokka, ganga, nota línuskauta o.s.frv. Þeir sem taka strætó geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin er til og frá stoppistöð.
Glæsilegir verðlaunaskildir eru veittir fyrir þrjú efstu sætin í hverjum fyrirtækjaflokki en keppnisgreinarnar eru tvær:
1. Flestir þátttökudagar (hlutfallslega m.v. fjölda starfsmanna í fyrirtækinu).
2. Flestir km (hlutfallslega m.v. fjölda starfsmanna í fyrirtækinu).
Hvert lið má innihalda 1-10 liðsmenn og hvert lið þarf að hafa liðsstjóra sem sér um að skrá sitt lið til þátttöku og heldur utan um daglega skráningu á netinu.
Á heimasíðunni http://hjolad.isisport.is/ er hægt að skrá lið í átakið og þar er einnig að finna allar nánari upplýsingar.