Allt starfsfólk Akureyrarbæjar á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það hafi tækifæri til að vinna störf sín án þess að eiga á hættu einelti og kynferðislega áreitni.
Akureyrarbær ber sem atvinnurekandi ábyrgð á því að koma í veg fyrir að starfsfólk og skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri áreitni eða öðru einelti.
Í starfsmannakönnun sem gerð var sl. vetur kom í ljós að um 7% þeirra starfsmanna sem svöruðu könnuninni höfðu orðið fyrir einelti einu sinni eða oftar á núverandi vinnustað. Um 3% svarenda höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni einu sinni eða oftar á vinnustaðnum.
Gefnar hafa verið út leiðbeiningar sem gagnast ættu þolanda eineltis/kynferðislegrar áreitni og yfirmanni sem fær slík mál til úrlausnar. Einnig hefur verið gefið út veggspjald með upplýsingum um hvert hægt sé að leita komi upp kynferðisleg áreitni eða einelti á vinnustað.
Leiðbeiningarnar er hægt að nálgast hér og plakatið hjá jafnréttisráðgjafa eða starfsmannaþjónustu.
Fræðsla fyrir vinnustaði um þessi mál er einnig í boði. Nánari upplýsingar um fræðsluna gefa Katrín Björg Ríkarðsdóttir jafnréttisráðgjafi og Ingunn Helga Bjarnadóttir verkefnastjóri starfsþróunar.