Traustur rekstur Akureyrarbæjar?- bréf frá bæjarstjóra

Ágætu starfsmenn Akureyrarbæjar!

Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2009 liggur nú fyrir. Í stað tæplega 900 milljóna halla sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun er tekjuafgangur samstæðunnar, Akureyrarbæjar og fyrirtækja í eigu hans, 1165 milljónir króna. Niðurstaðan er langt umfram væntingar sem skýrist aðallega af fjórum ástæðum. Tekjur eru meiri en gert var ráð fyrir, rekstrarútgjöld eru minni, lífeyrisskuldbinding vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar lækkar og söluhagnaður varð af sölu Norðurorku á hlut sínum í Þeistareykjum ehf.. Salan á Þeistareykjum skýrir rúmlega helming þess árangurs sem náðist á árinu þannig að þó að hún hefði ekki komið til hefði engu að síður orðið afgangur af rekstrinum.

Fjárhagsáætlun ársins 2009 var gerð á miklum óvissutímum skömmu eftir fall íslensku bankanna. Ljóst var að rekstrarforsendur höfðu gjörbreyst til hins verra sem kallaði á aðhaldsaðgerðir af hálfu bæjaryfirvalda. Við þessari stöðu var brugðist með aðhaldi á öllum sviðum en á sama tíma var lögð áhersla á að verja eins og kostur var þá starfsemi sem haldið er úti af hálfu sveitarfélagsins. Ég tel að þessar áherslur ásamt pólitískri samstöðu um verkefnið hafi leitt til þess að góð sátt skapaðist um aðhaldsaðgerðir bæjaryfirvalda.

Stjórnendur og starfsmenn bæjarins eiga mikið lof skilið fyrir skilning og þátttöku í framkvæmd þeirra. Ég vil nota þetta tækifæri til þessa að þakka ykkur öllum fyrir ykkar stóra þátt í því að skila þeirri niðurstöðu sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Með henni höfum við náð mikilvægum áfanga í að treysta fjárhag bæjarins til lengri tíma.

Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri.

 

Ársreikningur 2009

Fréttatilkynning með ársreikningi 2009 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan