Bæjarstjórinn á Akureyri, Hermann Jón Tómasson, kynnti á föstudag nýja þjónustustefnu fyrir starfsmenn
Akureyrarbæjar. Þjónustustefnan var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar í febrúar sl. en meginatriði hennar koma fram í gildunum
"fagleg, lipur og traust". Um leið og stefnan var kynnt, voru veitt verðlaun fyrir tákn sem standa fyrir gildin þrjú en efnt var til samkeppni um táknin á
meðal starfsfólks bæjarins.
Það var Gunnlaug E. Friðriksdóttir, þjónustufulltrúi á búsetudeild bæjarins, sem hlaut viðurkenningu fyrir tillögu
sína. Einnig fékk Davíð Hjálmar Haraldsson, launafulltrúi hjá starfsmannaþjónustu bæjarins, sérstaka viðurkenningu fyrir
"stafræna lýsingu á gildunum þremur" í bundnu máli.

Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri, afhendir Gunnlaugu viðurkenninguna. Athöfnin fór fram á leikskólanum
Kiðagili á föstudag.
HÉR má sjá teikningar Gunnlaugar sem verða nánar
útfærðar og notaðar sem tákn fyrir þjónustustefnu Akureyrarbæjar.
Þjónustustefnuna má nálgast hér.
Loks fylgja vísur Davíðs Hjálmars sem lýsa gildunum þremur:
Stafræn lýsing á gildum fyrir þjónustustefnu Akureyrarbæjar
Ætíð hér við okkur semst,
ei við notum svipur;
þjónustan er fyrst og fremst
FAGLEG, TRAUST og LIPUR.
Við hjálpumst að ef þess er þörf,
þínum óskum sinnum
og fróð um okkar fjölbreytt störf
FAGLEG öll hér vinnum.
Lítir þú til okkar inn
sem ætíð verið gæti,
brosir glaður bærinn þinn
og býður LIPUR sæti.
Ekkert hér við látum laust,
þín leyndarmál ei sýnum.
Þjónustan er trygg og TRAUST:
Treystu bænum þínum.
- Davíð Hjálmar Haraldsson