Í dag verður efnt til þjóðarátaks í tengslum við ?Inspired by Iceland?, markaðsátak ferðaþjónustunnar á erlendum mörkuðum. Ætlunin er að virkja íslenskan almenning og fá fólk til þess að vekja jákvæða athygli á Íslandi undir heitinu "Þjóðin býður heim". Átakið minnir á að nú er einmitt rétti tíminn til að heimsækja landið því það hafi aldrei verið eins lifandi og síbreytilegt.
Skorað er á fólk að senda tölvupóst á vini, kunningja, fjölskyldu og viðskiptafélaga erlendis með slóð á glænýtt og skemmtilegt myndband sem sýnir Ísland sem spennandi áfangastað. Fólk er hvatt til þess sérstaklega að senda tölvupóstinn milli kl. 13.00-14.00 að íslenskum tíma. Þeir sem ekki hafa tök á því að taka þátt í átakinu á þeim tíma geta samt sem áður sent tölvupóstinn hvenær sem er dagsins og áfram næstu vikurnar. Hægt er að nálgast myndbandið og senda tölvupóstinn á ensku HÉR.