Niðurstöður starfsmannakönnunar - Könnun um heilsu, líðan og starfstengd viðhorf

Niðurstöður starfsmannakönnunar um heilsu, líðan og starfstengd viðhorf starfsfólks hjá Akureyrarbæ liggja nú fyrir. Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir stjórnendum á sérstökum fundi Ketilhúsinu 25. maí síðastliðin og þeirra verkefni er að miðla niðurstöðunum áfram til síns starfsfólks.  Hér er sagt frá helstu niðurstöðum en heildarskýrsla verður tilbúin í júní og verður hún þá aðgengileg í starfsmannahandbókinni.

Könnunin er liður í doktorsverkefni Hjördísar Sigursteinsdóttur í félagsfræði við Háskóla Íslands og verður hún framkvæmd þrisvar sinnum. Næst verður hún lögð fyrir vorið 2011 og að lokum verður hún lögð fyrir haustið 2012.

Könnunin náði til allra starfsmanna Akureyrarbæjar í meira en 30% starfi og alls svöruðu 1030 starfsmenn. Svarhlutfallið í könnuninni var gott eða um tæplega 64% og niðurstöðurnar gefa þar af leiðandi góða vísbendingu um hvernig starfsfólki bæjarins líður í starfi.

Nær 80% þeirra sem tóku þátt í könnuninni eru konur sem er lítið eitt hærra hlutfall en meðal starfsmanna í heild þannig að konur voru heldur duglegri að svara en karlar. En það er ljóst að Akureyrarbær er mikill kvennavinnustaður þegar á heildina er litið en um 73% allra starfsmanna sveitarfélagsins eru konur. Um 55% svarenda hafði starfað lengur en 5 ár hjá Akureyrarbæ þannig að óhætt er að segja að starfsmannavelta hjá bænum sé lítil sem bendir til að starfsfólk sé almennt ánægt í starfi.

Niðurstöður könnunarinnar eru þegar á heildina er litið mjög ánægjulegar og virðist starfsfólk Akureyrarbæjar almennt mjög ánægt í starfi. Niðurstöður gefa til kynna að 88,1% starfsmanna sé mjög eða frekar sammála fullyrðingunni ?Þegar á heildina er litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu?. Stærsti hluti starfsmanna eða 76,4% er ánægður með stjórnun vinnustaðarins þannig að þessir starfsmenn segjast vera mjög oft eða alltaf ánægðir með stjórnunina.

Konnun

Nær 80% starfsmanna eru ánægð með vinnuaðstöðu sína og starfsandi og félagsleg samskipti á vinnustöðum eru almennt talin mjög góð. Vinnuálag er hinsvegar víða talið of mikið og verkefni of erfið, sérstaklega í störfum þar sem konur eru í meirhluta.

Kynjamisrétti og misrétti vegna aldurs er mjög sjaldgæft samkvæmt könnuninni, þ.e. starfsfólk telur sjaldnast að því sé mismunað á þessum forsendum. Könnunin sýndi að einelti, hótanir og kynferðisleg áreitni eru einnig fátíð fyrirbæri þótt segja megi að hvert eitt tilvik sé einu tilviki of mikið.

Þó svo að starfsmannakönnunin gefi almennt til kynna að Akureyrarbær sé góður vinnustaður gefur hún líka vísbendingar um ýmislegt sem betur mætti fara. Dæmi um það eru þættir sem varða t.d. upplýsingaflæði til starfsmanna og starfsmannasamtöl en 35% starfsmanna hefur ekki gefist kostur á formlegu starfsmannasamtali við yfirmann sinn sl. tvö ár og of sjaldan er unnið áfram með niðurstöður úr samtalinu. Á þessum þáttum verður tekið og til að mynda er strax búið að ákveða að farið verði í herferð næsta haust til að stuðla að því að starfsmannasamtöl fari fram eins og mannauðsstefna Akureyrarbæjar gerir ráð fyrir.

Til að vinna frekar með niðurstöðurnar hefur verið myndaður samstarfshópur sem hefur það hlutverk að rýna niðurstöður könnunarinnar í heild og þvert á deildir, koma með tillögur að frekari úrvinnslu gagna, koma með tillögur að umbótaverkefnum í ljósi niðurstaðna og fylgja eftir vinnu með niðurstöður og kynningu.

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan