Þann 3. febrúar hófst lífshlaupið en það er fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ. Landsmenn eru hvattir til þess að huga að sinni daglegri hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, heimilisverkum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.
Í vinnustaðakeppninni eru útreikningar þeir sömu og eru í fyrirtækjakeppninni Hjólað í vinnuna, þar sem fjöldi þátttakenda er deilt með heildarfjölda starfsmanna á vinnustaðnum, nema nú er keppt um fjölda daga og mínútna. Keppnin stendur frá 3. - 23. febrúar 2010 að báðum dögum meðtöldum.
Skrá má alla hreyfingu niður en hún þarf að ná minnst 30 mínútum. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín í senn.
Margir vinnustaðir eru tengdir kennitölu Akureyrarbæjar þess vegna er æskilegt að hver vinnustaður noti aðra kennitölu (t.d. kennitölu eins starfsmanns). Hver vinnustaður getur haft mörg lið en kennitalan stýrir hvaða lið telja sameiginlega. Í hverju liði mega vera allt að 10 starfsmenn. Ef liðsmenn eru fleiri en tíu sem taka þátt á sama vinnustað er einfalt að stofna lið númer tvö, þrjú....undir kennitölu vinnustaðarins. Þannig telur árangur liðanna sameiginlega fyrir vinnustaðinn. Það er tilvalið að skipta vinnustaðnum upp, t.d. miða við deildir.
Á vefnum www.lifshlaupid.is er auðvelt að fylgjast með árangri mismunandi liða innan vinnustaðar (með því að smella á nafn vinnustaðarins) og því lítið mál að búa til innanhúskeppni samhliða.
Vinnustaðir Akureyrarbæjar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.