Félagsliðabrú, háskólastoðir og háskólabrú - Í SÍMEY næsta haust

Næsta haust býður Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar upp á félagsliðabrú, háskólastoðir og háskólabrú.

Félagsliðabrú er skipulagt nám fyrir einstaklinga sem eru orðnir 22ja ára og hafa a.m.k. 3ja ára starfsreynslu. Að auki þurfa þeir að hafa lokið starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga, sveitarfélaga eða annarra aðila sem sjá um námskeiðahald.  Innihald námsins er félags-, sál- og uppeldisgreinar sem og sérgreinar á sviði fötlunar og öldrunarþjónustu. Sérhæfingin er sjö einingar á hvoru sviði og geta nemendur tekið bæði sviðin ef þeir kjósa.

Háskólastoðir er nám ætlað fólki á vinnumarkaði, eldra en 20 ára og með stutta formlega skólagöngu. Markmið Háskólastoða er að stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til áframhaldandi náms og auðvelda þeim að takast á við ný verkefni. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni.

Háskólabrú er aðfararnám fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Að loknu námi uppfylla nemendur inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis og telst námið sambærilegt stúdentsprófi samkvæmt samningi Keilis, HÍ og menntamálaráðuneytisins. Markmiðið með náminu er að veita nemendum góðan undirbúning fyrir krefjandi háskólanám. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan