Næsta haust býður Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar upp á félagsliðabrú, háskólastoðir og háskólabrú.
Félagsliðabrú er skipulagt nám fyrir einstaklinga sem eru orðnir 22ja ára og hafa a.m.k. 3ja ára starfsreynslu. Að auki þurfa þeir að hafa lokið starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga, sveitarfélaga eða annarra aðila sem sjá um námskeiðahald. Innihald námsins er félags-, sál- og uppeldisgreinar sem og sérgreinar á sviði fötlunar og öldrunarþjónustu. Sérhæfingin er sjö einingar á hvoru sviði og geta nemendur tekið bæði sviðin ef þeir kjósa.
Háskólastoðir er nám ætlað fólki á vinnumarkaði, eldra en 20 ára og með stutta formlega skólagöngu. Markmið Háskólastoða er að stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til áframhaldandi náms og auðvelda þeim að takast á við ný verkefni. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni.
Háskólabrú er aðfararnám fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Að loknu námi uppfylla nemendur inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis og telst námið sambærilegt stúdentsprófi samkvæmt samningi Keilis, HÍ og menntamálaráðuneytisins. Markmiðið með náminu er að veita nemendum góðan undirbúning fyrir krefjandi háskólanám.