Á mánudaginn hófst námskeið fyrir alla skólaliða, matráða, húsverði, stuðningsfulltrúa og fleira starfsfólk grunnskóla Akureyrar og mun standa fram á föstudag. Yfirskriftin er ?Að verða hluti af heild? og eru þátttakendur um 140. Námskeiðið var þróað af SÍMEY-Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar í kjölfar MARKVISS verkefnis sem unnið var í Lundarskóla árið 2009. Verkefnið gekk afar vel og í framhaldinu réðst SÍMEY í útfærslu fyrir alla aðra starfsmenn grunnskóla Akureyrarbæjar. Námskeiðið styrkja Starfsmenntaráð, Mannauðssjóður Kjalar og Sveitamennt ? starfsmenntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni.
Markmið námskeiðsins er að efla starfsfólk og starfsanda og auka kunnáttu á tölvur og ýmsa upplýsingatækni. Auk þess er lögð áhersla á að hvetja starfsfólk til frekari sí- og endurmenntunar. Námskeiðið skiptist í tvo hluta; annars vegar hópefli, þar sem lögð er áhersla á starfsandann, teymisvinnu og einstaklingsframtak, og hins vegar tölvukennslu, þar sem áhersla er lögð á upplýsingalæsi, vefpóst og internetið.
Í kjölfar námskeiðsins stendur öllum þátttakendum til boða viðtal með náms- og starfsráðgjafa hjá SÍMEY til að skoða frekari möguleika á námi eða annarri uppbyggingu.
