Sífellt fleiri nota þjónustugáttina

Alls bárust 8.461 umsókn í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar árið 2021 sem er aukning um 44% frá árinu áður.

Möguleikar til notkunar hafa sömuleiðis aukist með fjölgun umsóknarforma, enda hefur starfsfólk bæjarins lagt kapp á að koma umsóknum um fjölbreytta þjónustu, styrki, leyfi og fleira á rafrænt form á einn stað.

128 umsóknarform í gáttinni

27 nýjum umsóknarformum var bætt við í fyrra og voru þau samtals 128 um síðustu áramót. Umsóknarformin tilheyra öllum sviðum bæjarins. Skipulags- og byggingarmál eru fyrirferðarmikil, en umsóknir um leik- og grunnskóla fara einnig í gegnum gáttina, svo og leyfi til dýrahalds, umsóknir um fjárhagsaðstoð og leiguhúsnæði á vegum sveitarfélagsins svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

Þjónustugáttin sparar spor og tíma

„Covid hefur kennt okkur að við þurfum að geta afgreitt málin fljótt og örugglega í gegnum stafrænar leiðir og sú vegferð mun halda áfram. Við viljum stytta leið íbúanna að þjónustunni og úrvinnslutíma beiðna. Þróun á möguleikum og notkun þjónustugáttarinnar endurspeglar þessi markmið okkar og við stefnum á að gera enn betur,“ segir Sumarliði Helgason, sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs.

Bæjarráð fjallaði nýverið um þjónustugáttina og fagnaði þeim árangri sem náðst hefur. Um leið eru stjórnendur bæjarins hvattir til að fjölga aðgerðum enn frekar og spara íbúum og fyrirtækjum spor og tíma.

Kíktu inn fyrir gáttina

Þjónustugáttin einskorðast ekki við umsóknir, því þar er einnig hægt að fylgjast með afgreiðslu erinda sinna, nálgast yfirlit reikninga, upplýsingar um frístundaframboð og fleira.

Íbúar og viðskiptavinir sveitarfélagsins eru hvattir til að kynna sér möguleika þjónustugáttar. Ef eitthvað er óljóst eða má betur fara þá er velkomið að senda okkur ábendingu.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan