Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum þann 1. febrúar nýja stefnu í safnamálum fyrir Akureyrarbæ og er þetta í fyrsta sinn sem sveitarfélag markar sérstaka stefnu á þessu sviði. Safnastefnan og aðgerðaráætlun sem henni fylgir gildir fyrir næstu 5 ár og er leiðarljós fyrir bæjaryfirvöld um forgangsröðun og aðkomu að rekstri safna í sveitarfélaginu.
Af þeim liðlega tuttugu söfnum, sýningum, safnvísum og menningarminjum sem í sveitarfélaginu eru, teljast tólf þeirra að verulegu eða öllu leyti rekin af og á ábyrgð Akureyrarbæjar. Í stefnunni er megináhersla lögð á þau síðarnefndu eða eins og í henni segir: „Aðgerðir á gildistíma stefnunnar munu því fyrst og fremst stuðla að því að efla og styrkja þá starfsemi sem fyrir er hjá söfnum sem eru að verulegu eða öllu leyti á ábyrgð Akureyrarbæjar, fremur en að taka þátt í stofnun nýrra safna eða yfirtöku sýninga á svæðinu.“ Þá fylgja stefnunni ítarlegar verklagsreglur um móttöku nýrra safna eða sýninga.
Jafnframt er mikið lagt upp úr að söfnin séu fyrir alla og að starfsemi þeirra eigi að ná til fjölbreytts hóps bæjarbúa, líka þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli eða búa við fatlanir eða hömlur af ýmsum toga. Loks er sérstaklega minnt á að Akureyrarbær hefur hlotið viðurkenningu UNICEF á Íslandi sem barnvænt sveitarfélag og í því ljósi undirstrikað að aðgengi barna að safnastarfi verði sem best og á jafnréttisgrunni, sérstaklega í þeim tilfellum sem börn hafa takmarkað aðgengi að réttindum sínum eða upplifi mismunun. Þá verði haldið áfram góðu samstarfi safna og skóla með því styrkja enn frekar kennslu og nám inni á söfnunum sjálfum.
Safnastarf er hverju samfélagi mikilvægt og þó hlutverkin geti verið ólík þá hafa þau sameiginlega að markmiði að virkja anda og efla vitund og þátttöku gesta sinna, bæði heimamanna og ferðafólks af innlendum og erlendum uppruna.
Sjá nánar:
- Safnastefna Akureyrarbæjar 2022-2026.
- Aðgerðaráætlun Safnastefnu Akureyrarbæjar.